EN

3. desember 2018

Arna Kristín Einarsdóttir ráðin framkvæmdastjóri kanadísku þjóðarhljómsveitarinnar

Arna Kristín Einarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri kanadísku þjóðarhljómsveitarinnar í Ottawa (National Arts Centre Orchestra) og tekur við því starfi 1. maí 2019. Arna hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 2013 en stjórn hljómsveitarinnar framlengdi samninginn við hana árið 2017 til 2021. Áður var Arna Kristín  tónleikastjóri hljómsveitarinnar. Arna Kristín mun gegna starfi framkvæmdastjóra Sinfóníuhjómsveitar Íslands fram á vor.

Frétt um ráðninguna frá kanadísku þjóðarhljómsveitinni

Sinfóníuhljómsveitin hefur eflst á marga lund á undanförnum árum. Hljómsveitin er m.a. nýkomin úr tónleikaferð um Japan þar sem hún lék á 12 tónleikum. Uppselt var á alla tónleikana og viðtökur japanskra áheyrenda afar góðar. 

Ég hef verið svo heppin að fá að starfa með frábæru fólki í framvarðarsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 2007, fyrst sem tónleikastjóri og síðar sem framkvæmdastjóri. Þetta hefur verið tími mikilla breytinga hjá hljómsveitinni. Fyrstu árin fóru í að undirbúa flutninga hljómsveitarinnar úr Háskólabíói og síðar að flytja með hljómsveitina í sitt langþráða tónlistarhús, Hörpu. Þar hefur hljómsveitin fengið að vaxa og dafna við kjöraðstæður. Það hefur verið sannur heiður að starfa með þeim frábæru listamönnum sem skipa hvert sæti í Sinfóníuhljómsveit Íslands og þeim innlendu og erlendu tónlistarmönnum sem hafa unnið með okkur. Nú er stefnan tekin vestur um haf. Ég er full tilhlökkunar að fá tækifæri að vinna með nýrri og afar virtri hljómsveit, þjóðarhljómsveit Kanada og því sterka teymi sem að baki henni stendur, en finn líka fyrir sömu ábyrgðartilfinningu og ég hef haft gagnvart Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það er ábyrgðarhluti að taka að sér að leiða starf menningarstofnana sem gegnt hafa mikilvægu hlutverki í samfélögum og mótað sjálfsmynd þjóða,“ segir Arna Kristín.