EN

15. maí 2024

Barbara Hannigan ráðin aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Tekur formlega við stöðunni haustið 2026

Kanadíski hljómsveitarstjórinn og söngkonan Barbara Hannigan hefur verið ráðin aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún mun taka við stöðunni í ágúst 2026 og gegna henni í þrjú starfsár. Þetta er í fyrsta sinn sem Barbara Hannigan tekur að sér hlutverk aðalhljómsveitarstjóra en hún mun stjórna Sinfóníuhljómsveit Íslands á sex áskriftartónleikum á hverju starfsári, ásamt því að hljóðrita og stjórna sveitinni á tónleikaferðum. Sem listrænn stjórnandi mun Hannigan koma að framsæknu verkefnavali og dagskrárgerð hljómsveitarinnar.

„Forvitni, hugrekki og sköpunargleði er það sem einkennir hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands, auk metnaðar þeirra. Hljómsveitin er tæknilega mjög sterk en svo hafa þau líka dásamlegt ímyndunarafl. Í samstarfi mínu við hljómsveitina kviknaði í fyrsta sinn löngun hjá mér til að taka að mér hlutverk aðalhljómsveitarstjóra. Þegar saman kom þessi skapandi orka á hárréttum tímapunkti ákváðum við að leggja í þessa vegferð saman,“ segir Barbara Hannigan.

„Barbara er einstök og við getum ekki beðið eftir að vinna með þessari framúrskarandi listakonu. Við vitum að dagskráin með henni verður framsækin og spennandi og hlökkum til að vera hluti af hennar einstöku túlkun. Í fyrsta skipti sem hún steig á sviðið í Eldborg með hljómsveitinni upplifðum við eitthvað alveg sérstakt. Það er bæði hrífandi og gefandi að upplifa það mikla traust sem ríkir milli Barböru og hljóðfæraleikaranna. Við erum þakklát og stolt af því að vera fyrsta sinfóníuhljómsveitin til að ráða Barböru Hannigan sem aðalhljómsveitarstjóra og listrænan stjórnanda. Við vitum að hún á eftir að hafa mikil áhrif á hljómsveitina, á áheyrendur og íslenskt menningarlíf á komandi árum,“ segir Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Barbara Hannigan
Barbara Hannigan hefur vakið feikilega aðdáun um heim allan undanfarin ár, fyrir hljómsveitarstjórn og stórfenglegan söng. Hún hefur starfað með öllum helstu hljómsveitum heims og frá upphafi tónlistarferilsins hefur verkaskrá hennar einkennst af nýsköpun og ferskleika. Hún hefur starfað náið með stórum hópi tónskálda, frumflutt ógrynni nýrra tónverka auk þess að leggja sérstaka rækt við tónlist frá 20. öld.

Barbara Hannigan er Íslendingum að góðu kunn en hún sló í gegn með Sinfóníuhljómsveit Íslands á Listahátíð í Reykjavík vorið 2022. Síðan þá hefur hún stjórnað og sungið með sveitinni nokkrum sinnum og meðal annars heimsfrumflutt verk eftir íranska tónskáldið Golfam Khayam.

Barbara Hannigan hefur hlotið ótal verðlaun fyrir list sína, meðal annars Grammy-verðlaun fyrir plötuna Crazy Girl Crazy árið 2018 og hin virtu Léonie Sonning-verðlaun árið 2020. Þegar Rolf Schock-verðlaunin féllu henni í skaut rökstuddi dómnefndin ákvörðun sína með þeim orðum að Hannigan væri „einstakur og framsækinn flytjandi sem nálgast tónlistina sem hún flytur með öflugum og lifandi hætti“.

Samhliða annasömum stjórnenda- og einsöngsferli hefur Barbara Hannigan einnig hlúð að uppgangi og vexti ungs framúrskarandi listafólks. Hún er nýráðinn prófessor við Konunglegu tónlistarakademíuna í London og stofnandi verkefna á borð við Equilibrium. Þar er markvisst unnið að því að veita ungu tónlistarfólki tækifæri á tónleikapallinum á einn eða annan hátt með þátttöku sístækkandi hóps kunnra hljómsveitarstjóra, einleikara, einsöngvara og tónskálda.

Hér má nálgast fréttatilkynningu á ensku og myndir.