EN

24. apríl 2019

Daníel Bjarnason tekur við stöðu aðalgestastjórnanda

Daníel Bjarnason tekur við stöðu aðalgestastjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands í september 2019 og mun gegna því hlutverki næstu tvö starfsár. Daníel mun stjórna hljómsveitinni á þrennum tónleikum í Eldborg á næsta starfsári og stjórna hljómsveitinni á tónleikaferðalagi hennar til Þýskalands og Austurríkis í nóvember 2019. Þá mun Daníel stjórna upptökum á íslenskri tónlist fyrir bandaríska útgáfufyrirtækið Sono Luminus.

Árin 2015 -2018 var Daníel staðarlistamaður hljómsveitarinnar þar sem hann gegndi bæði hlutverki hljómsveitarstjóra og tónskálds.

„Það er mér mikill heiður að taka við stöðu aðalgestahljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Undanfarin ár hef ég átt í mjög nánu og góðu sambandi við hljómsveitina og ég hlakka til að halda áfram að vinna með öllu því frábæra fólki sem stendur að Sinfóníuhljómsveit Íslands, bæði hljómsveitinni sjálfri og fólkinu á bak við tjöldin,“ segir Daníel í tilefni af ráðningu hans í dag.

„Daníel er einstaklega fjölhæfur listamaður sem hefur djúpan skilning á því hljóðfæri sem heil sinfóníuhljómsveit er, bæði sem tónskáld og hljómsveitarstjóri. Daníel hefur síðustu ár náð stórkostlegum alþjóðlegum frama og unnið með virtustu listamönnum og hljómsveitum heims. Við höfum átt afar farsælt samstarf við Daníel og átt hlutdeild í að panta tónverk af honum í samfloti við hljómsveitir á borð við Cincinnati-hljómsveitina, Los Angeles Fílharmóníuna í Bandaríkjunum og Jyske Opera í Danmörku. Það er okkur einstakt ánægjuefni að Daníel sé fyrsti íslenski hljómsveitarstjórinn til að vera útnefndur aðalgestahljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Við erum stolt af Daníel og hans listrænu sigrum og væntum mikils af samstarfinu,“ segir Arna Kristín Einarsdóttir framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.