EN

20. október 2019

Daníel semur verk fyrir aldarafmæli LA Phil

Fílharmóníuhljómsveit Los Angeles pantaði verk af Daníel Bjarnasyni í tilefni af 100 ára afmæli sveitarinnar. Verkið From Space I saw Earth er innblásið af upplifun geimfara af jörðinni úr fjarska og er hljómsvetinni skipt upp og þrír hljómsveitarstjórar stjórna flutningnum. Það eru Gustavo Dudamel, núverandi aðalhljómsveitarstjóri Fílharmoníusveitar Los Angeles, og tveir fyrrverandi aðalhljómsveitarstjórar hennar, Esa-Pekka Salonen og Zubin Mehta, sem stjórna flutningnum. Verkið verður frumflutt í Walt Disney Hall á afmælistónleikum hljómsveitarinnar 24. október næstkomandi.

Í tilefni af frumflutningi verksins ræddi Guðni Tómasson við Daníel Bjarnason um tilurð verksins í Víðsjá á Rás 1. Á vef RÚV má hlusta á viðtalið í heild sinni.

Í nóvember heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands í tónleikaferð með Daníel Bjarnasyni. Verkin sem hljómsveitin leikur í tónleikaferðinni verða flutt undir stjórn Daníels á tvennum tónleikum í Eldborg í aðdraganda ferðarinnar. Fyrst flytur hljómsveitin verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur, staðartónskáld hljómsveitarinnar, og Pjotr Tsjajkovskíj á opnum hádegistónleikum föstudaginn 31. október kl. 11:45. Seinni hluti efnisskrárinnar hljómar síðan á kvöldtónleikum  7. og 8. nóvember kl. 19:30 þar sem hljómsveitin leikur m.a. píanókonsertinn Processions eftir Daníel með Víkingi Heiðari Ólafssyni píanóleikara.