EN

20. nóvember 2023

Einstakar jólastundir

Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur á einstökum jólastundum í Hörpu 11. og 12. Desember næstkomandi. Nemendur úr vinaskólum hljómsveitarinnar, Klettaskóla, Arnarskóla og leikskólanum Sólborg ásamt nemendum af táknmálssviði Hlíðaskóla og börnum og ungmennum í Blindrafélaginu eru gestir á jólastundunum. Hljómsveitin mun leika fjölbreytta jóladagskrá, þar á meðal sérstaka jólasyrpu með uppáhalds jólalögum barnanna, en kallað var eftir eftirlætis lögum nemenda skólanna fyrir tilefnið.

Jólastundin fer fram í Norðurljósum, í rólegu og þægilegu umhverfi þar sem allir fá að njóta sín. Ásamt hljómsveitinni koma fram ballettdansarar úr Listdansskóla Íslands og Maxímús Músíkús kemur að sjálfsögðu í heimsókn. Leikarinn Kjartan Darri Kristjánsson í hlutverki Sigfúsar trúðs er kynnir og hljómsveitarstjóri er Mirian Khukhunaishvili.

Einstakar jólastundir eru nú haldnar í þriðja sinn.