EN

4. febrúar 2019

Ferskir vindar í blásaradeildinni

Tveir nýjustu meðlimir blásaradeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands teknir tali.

Á síðustu árum hafa margir ungir hljóðfæraleikarar bæst í raðir Sinfóníuhljómsveitar Íslands og borið með sér ferska vinda úr ýmsum áttum. Þeirra á meðal eru Bandaríkjamaðurinn Frank Hammarin, sem gekk til liðs við horndeildina haustið 2016, og Bryndís Þórsdóttir, sem hóf störf sem fagottleikari vorið 2017. 

Reynsluboltar og nýgræðingar

„Þetta er búið að vera frábært,“ segir Frank, „Auðvitað er margt nýtt fyrir manni, ég hef aldrei tilheyrt atvinnumannahljómsveit áður, svo hver dagur færir manni fersk viðfangsefni. En mér var afar vel tekið, og horndeildin er uppfull af einstökum ljúfmennum,“ segir Frank. Bryndís tekur í sama streng. „Andrúmsloftið í hljómsveitinni er mjög gott, og manni líður mjög vel hér – við erum ekkert látin finna fyrir því að vera yngst og nýjust!“ Þau eru sammála um að það sé styrkleiki fyrir hljómsveitina að eiga hljóðfæraleikara á fjölbreyttum aldri, bæði reynslubolta og nýgræðinga. „Margir af hinum eldri hafa kennt manni eða stjórnað í skólahljómsveitum. Og maður þekkir líka margt af unga fólkinu – sumir voru meira að segja með mér í náminu í Kaupmannahöfn. Við erum eiginlega dálítil dönsk klíka!“ segir Bryndís, en auk hennar voru meðal annars Vera Panitch, annar konsertmeistari, og Páll Palomares, leiðari annarrar fiðlu, við nám í Kaupmannahöfn. „Við erum líka dugleg að hittast fyrir utan vinnuna, það er skemmtilegt félagslíf,“ segir Frank. „Það er meira að segja búið að stofna útivistarhóp!“ bætir Bryndís við.

Örlögin réðust á unglingsárunum

Frank er fæddur 1990 í Kaliforníu en Bryndís 1994 í Grafarvoginum. Þótt bæði hafi  þau náð langt í tónlistinni voru þau ekki alltaf viss um að hún yrði framtíðarstarfið. „Ég kem ekki beinlínis af tónlistarheimili, þótt ég og tvíburabróðir minn höfum báðir lært á hljóðfæri,“ segir Frank. „Pabbi minn starfar í tölvugeiranum og honum fannst mikilvægt að ég lærði stærðfræði og eðlisfræði. En hornið sótti sífellt á þegar leið á unglingsárin – og svo kom örlagastundin þegar ég var kominn í framhaldsskóla og átti að fara að læra örsmæðareikning. Þá hugsaði ég: „Hingað og ekki lengra. Ég vel hornið!“ segir Frank og hlær. „Ég var líka með góða kennara sem beindu mér í rétta átt og hvöttu mig til þess að sækja um í tónlistarháskóla.“ Móðir Bryndísar er tónlistarkennari, en sjálf var hún heldur ekki viss um að hún myndi leggja tónlistina fyrir sig. „Ég byrjaði að læra á klarinett 8 ára í skólahljómsveit Grafarvogs. Það var skemmtilegt, en ég var samt ekki alveg sannfærð. Ég held ég hafi  hreinlega ekki alveg fundið mig á því hljóðfæri. Örlagastundin mín kom því þegar ég ákvað að skipta yfir á fagottið. Þar fann ég mitt hljóðfæri,“ segir Bryndís. „En ég hef líka sérstaka ástríðu fyrir því að spila með öðru fólki – bæði í kammerhópum og hljómsveit. Líf tónlistarnemans er stundum einmanalegt við langar æfingar – ég átti alltaf svolítið erfitt með þessa einangrun á námsárunum. Þegar maður kemst út úr henni og finnur tónlistina lifna við í samhljómi heillar sinfóníuhljómsveitar – þá veit maður að maður hefur valið rétt,“ segir Bryndís, - „það er einfaldlega ekkert skemmtilegra.“

Valdi slydduna fram yfir strandlífið

Bryndís og Frank yfirgáfu bæði heimahagana ung til þess að mennta sig frekar í tónlist – Bryndís sem áður sagði í Kaupmannahöfn við Konunglega  tónlistarháskólann þar, en Frank fór frá Kaliforníu norður til Chicago, og þaðan til Baltimore, þar sem hann lauk meistaranámi frá Peabody-tónlistarháskólanum. „Ég kraði mig sífellt fjær og fjær foreldrum mínum, og nú er ég kominn til Íslands,“ segir Frank. „Þannig er heimur ungra hljóðfæraleikara í dag – þeir fara víða og búsetan ræðst af tækifærunum. Ég er mjög ánægður að hafa ratað til Íslands. Og þegar maður hugsar út í það er styttra frá Boston til Reykjavíkur en heim til Kaliforníu. Þetta er allt afstætt,“ segir hann brosandi. Aðspurður hvort fjölskyldunni þyki ekki leiðinlegt hvað hann er langt í burtu svarar hann: „Foreldrar mínir eru allavega ánægðir með hvað ég er ánægður – þau komu að heimsækja mig síðasta haust og lentu í alveg hræðilegu veðri. Þau brostu meðaumkunarbrosi til mín og sögðu: „Það er gott hvað þú ert hamingjusamur hér“. Ég held ég þur að bjóða þeim aftur fljótlega,“ segir Frank glaðbeittur. 

„En ég valdi þetta. Þegar ég spilaði prufuspilið hér hafði ég nýlega fengið stöðu við mjög virta nemendahljómsveit, New World Symphony sem er staðsett á Miami Beach í Flórída. Þegar ég vann svo prufuspilið hér var valið auðvelt, þótt ég þyrfti að sjá á eftir ströndinni. Þegar manni gefst færi á að vinna við góða atvinnumannahljómsveit skiptir veðrið ekki öllu máli.“

Draumastarfið á Íslandi

Umhverfið er ekki jafnframandi fyrir Bryndísi. Hún hefur líka áður unnið sem aukamaður með Sinfóníuhljómsveit Íslands og spilað með sveitinni af og til síðan 2013. Á námsárunum í Danmörku spilaði hún líka með hljómsveitum á borð við Fílharmóníusveit Kaupmannahafnar, Dönsku útvarpshljómsveitina og Sinfóníuhljómsveitina í Árósum. En draumastarfið var heima á Íslandi. „Já, þetta var draumastarfið, engin spurning. Mig langaði alltaf að koma aftur heim, hér er stemningin persónulegri og nánari. Það eru sjaldgæf forréttindi að bjóðast staða á borð við þessa, svo áheyrnarprufan var dálítið stressandi, enda mikið í húfi. Svo tóku við prufuvikur, þar sem ég starfaði með sveitinni þrjár vikur í senn. Það var líka stressandi, enda skammur tími til að sanna sig. Nú er ég svo á prufuárinu mínu, svo það er eins gott að vera á tánum! En það er yndislegt að vera komin heim og starfið er jafnvel enn skemmtilegra en ég hélt. Maður er stöðugt að læra ný verk – ég held það sé ómögulegt að staðna í þessu starfi.“