EN

30. apríl 2019

Hallfríður Ólafsdóttir heiðruð fyrir Maxímús Músíkús

Hallfríði Ólafsdóttur, höfundi bókanna um Maxímús Músíkús og leiðandi flautuleikara hljómsveitarinnar, var í vikunni veitt heiðursviðurkenning forseta Íslands fyrir að bera hróður Íslands víða um heim og stuðla að jákvæðu umtali um land og þjóð. Alls hafa komið út fimm bækur og diskar um Maxímús Músíkús með tónlist í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands en diskarnir eru orðnir mest dreifðu hljómdiskar hljómsveitarinnar því alls hafa verið framleidd ríflega hundrað þúsund bækur og hljómdiskar af þessu geysivinsæla tónlistarævintýri um músina tónelsku.

Sögurnar um Maxímús hafa verið þýddar á þrettán tungumál og gefnar út á sjö tungumálum. Einnig hefur músin stigið á svið m.a. í New York, Melbourne, Stokkhólmi, Los Angeles, Berlín, Winnipeg og Kuala Lumpur.

„Það er með hrærðu hjarta sem ég tek við þessari viðurkenningu. Ég vil þakka öllu samstarfsfólki mínu. Ég vil sérstaklega nefna stóru samstarfsaðilana sem hafa tekið þátt í þessu verkefni: Sinfóníuhljómsveit Íslands, Ríkisútvarpið og Forlagið sem tóku höndum saman um þetta mjög svo flókna og kostnaðarsama verkefni,“ sagði Hallfríður í þakkarræðu sinni á Besstastöðum þegar hún tók við viðurkenningunni.

Um tilurð verkefnisins segir Hallfríður: „Hugmyndin um Maxímús Músíkús spratt upp í kollinum á mér í nóvember 2005 en í henni samþættast það þrennt sem ég hef alltaf haft mestan áhuga á; bækur, börn og tónlist. Þá hafði ég nýverið leitað eftir skemmtilegum tónlistarbókum fyrir börnin mín án þess að finna neinar sem höfðu beina tengingu við hljómandi tónlist. Þess vegna var hugsunin frá upphafi sú að með bókinni ætti að fylgja geisladiskur með með upplestri sögunnar samfléttaðri tónlist og einnig allri tónlistinni í heild sinni.“

Fyrstu tónleikarnir um Maxímús Músíkús fór fram í mars 2008 í Háskólabíói með Sinfóníuhljómsveit Íslands. „Á útgáfutónleikum fyrstu bókarinnar, þar sem troðfullur salur leikskólabarna hlustaði af einbeitingu sem við höfðum aldrei upplifað á tónleikum okkar áður, hríslaðist um mig gæsahúð og ég fann að ég yrði að koma þessu efni til annarra hljómsveita. Samsetningin af ævintýri fléttuðu saman við tónlist og myndskreyttu með snilldarteikningum Þórarins Más Baldurssonar, víóluleikara í hljómsveitinni, var greinilega uppskrift sem virkaði. Því fór ég strax í að vinna þýðingar á handritinu og öllum leiðbeiningunum á ensku ásamt sessunaut mínum Daða Kolbeinssyni óbóleikara og búa efnið þannig úr garði að auðvelt væri fyrir hvaða hljómsveit sem væri að setja tónleikana upp, ásamt því að kynna það með dyggum stuðningi Útóns.“

Um tilurð næstu bókar segir Hallfríður: „Strax eftir fyrstu tónleikana hér heima var ég beðin um framhaldssögu. Þá þótti mér mikilvægt að sýna að börn gætu einnig leikið á hljóðfæri, ekki bara fullorðið fólk. Því næst unnum við sögur um dans og um söng og fannst við hafa skilað okkar hlutverki með þessum fjórum bókum. Þá kom til beiðni frá Fílharmóníusveit Los Angeles-borgar og Sinfóníuhljómsveit Íslands um nýja sögu fyrir tónlistarhátíðina „Reykjavík“ og þar með varð til sagan „Maxímús Músíkús fer á fjöll“, sem er kynning á landi og þjóð, náttúrunni, menningu okkar og tónlist. Í öllum sögunum er að minnsta kosti eitt íslenskt tónverk en í þessari nýju, sem ber enska heitið Maximus Musicus Visits Iceland, er einungis leikin íslensk tónlist, allt frá þjóðlögum til nýjustu framúrstefnutónlistar.“

Á síðasta ári hlaut Heimir Hallgrímsson sömu viðurkenningu frá forseta Íslands fyrir störf sín í þágu íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, en meðal fyrri verðlaunahafa má nefna frú Vigdísi Finnbogadóttur, Helga Tómasson listdansstjóra, Björk og ljósmyndarann RAX.