EN

8. nóvember 2021

Í leit að kjarnanum

Víkingur Heiðar Ólafsson, staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands, tekinn tali

Það má með sanni segja að vorið 2021 hafi verið viðburðaríkt hjá Víkingi Heiðari Ólafssyni. Þrátt fyrir að samkomubann og ferðatakmarkanir hafi leikið tónlistarheiminn grátt tókst honum að koma fram á fjölda tónleika, meðal annars með Concertgebouw-hljómsveitinni í Amsterdam, hann hljóðritaði nýja plötu fyrir Deutsche Grammophon og varð faðir í annað sinn. Það er líka margt spennandi í vændum, meðal annars tengt stöðu hans sem staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Verkefni hans með hljómsveitinni er sannarlega óvenjulegt og því liggur beint við að spyrja hvernig það hafi komið til?

„Þegar Sinfóníuhljómsveitin kom að máli við mig um staðarlistamannsstöðu vildi ég freista þess að gera eitthvað óvenjulegt,“ segir Víkingur og eftirvæntingin í svipnum leynir sér ekki. „Ég stakk upp á að flytja þrjá nýja (eða nýlega) píanókonserta eftir þrjú af mínum eftirlætis núlifandi tónskáldum og að höfundarnir héldu sjálfir um tónsprotann. Ég bað sem sagt ekki um lítið! Ég á langa vináttu og samstarf að baki með Daníel Bjarnasyni en undanfarið hef ég einnig kynnst og spilað með John Adams og Thomasi Adès. Þeir eru auðvitað afskaplega eftirsóttir listamenn og ég var í sannleika sagt ekki of vongóður að það tækist að fá þá til Íslands innan þess tímaramma sem í boði var, en einhvern veginn tókst að láta þetta allt saman ganga upp. Ég verð að hrósa Sinfóníuhljómsveitinni fyrir að taka svona vel í þessa hugmynd, og ég held að þetta hljóti að teljast nokkur tíðindi í íslensku tónlistarlífi. Og það er auðvitað sérstakt tilhlökkunarefni að spila glænýjan konsert Daníels sem er pantaður í sameiningu af Sinfóníuhljómsveit Íslands, Fílharmóníusveitinni í Los Angeles og Útvarpshljómsveitinni í Frankfurt.“

Samstarf Víkings við bandaríska tónskáldið John Adams er tiltölulega nýtilkomið en píanókonsert þess síðarnefnda, Must the Devil Have All the Good Tunes?, var frumfluttur árið 2019. „Síðustu tónleikarnir sem ég spilaði áður en COVID skall á voru einmitt með Adams í París og Amsterdam að flytja þennan konsert sem við munum spila á Íslandi,“ segir Víkingur. „Þetta voru í raun fyrstu tónleikar okkar saman, en svo þurftum við að aflýsa tónleikum í Cleveland og Róm vegna heimsfaraldursins. Með Adès spilaði ég píanókonsert Beethovens nr. 2 með Fílharmóníusveitinni í Los Angeles árið 2018, hann hélt þá um tónsprotann. Það var ótrúlega frjótt og skemmtilegt. En konsert hans, In Seven Days, sem mér finnst vera eitt albesta tónverk 21. aldarinnar, höfum við aldrei flutt saman. Í framhaldi af tónleikunum á Íslandi munum við flytja verkið með Fílharmóníusveitinni í Lundúnum seinna á starfsárinu. Það eru ótrúleg forréttindi fyrir mig að vinna með þessum mönnum sem eru meðal mestu tónskálda samtímans. Það er í raun svolítið eins og að vinna með Prokofíev eða Ravel hefði ég verið uppi fyrir 100 árum síðan!“

Nú hafa flestir flytjendur sem setja markið hátt í listinni einhverja reynslu af því að starfa með samtímatónskáldum að flutningi nýrrar tónlistar. Víkingur Heiðar er þar sannarlega ekki undanskilinn. En skyldi ekki vera töluvert öðruvísi að hafa tónskáldið beinlínis með sér á sviðinu sem hljómsveitarstjóra?

Víkingur segir að sér finnist lykillinn vera í því fólginn að leyfa tónlistinni að streyma frjálst fram. „Að óttast ekki tónskáldið og að hika ekki við að túlka verkið öðruvísi en hefur áður verið gert. Enda vita flestir tónlistarmenn að tónlistin er stærri en einstaklingurinn, að túlkunarleiðirnar, þegar um meistaraverk er að ræða, eru nær óendanlegar. Þegar ég spilaði Adamskonsertinn með Adams sem stjórnanda fann ég sterkt fyrir þessari frumsköpun. Alltaf þegar ég hef spilað konsertinn Processions með Daníel, sem er orðið ansi oft, finnst mér við svolítið vera að endurskapa verkið frá grunni þó nóturnar séu þær sömu. Allir sem hafa prófað að semja tónlist vita hversu ómöguleg og merkingarlítil túlkunarmerki eins og mezzopiano eða crescendo eru í raun. Maður þarf alltaf að komast handan þeirra að kjarnanum sem bjó að baki þeim. Þá opnast margir möguleikar,“ segir Víkingur.

Hugmyndina að þessu nýstárlega verkefni staðarlistamanns má kannski einmitt rekja til þess þegar Víkingur frumflutti píanókonsertinn Processions eftir Daníel Bjarnason með Sinfóníuhljómsveitinni á Myrkum músíkdögum árið 2009. Hvernig skyldi það samstarf hafa þróast síðan þá?

„Daníel er einn af mínum bestu vinum og ég ber takmarkalausa virðingu fyrir honum,“ segir Víkingur. „Hann er einstakt tónskáld, kjarkaður og ljóðrænn, og svo er hann líka fínn píanisti og auðvitað frábær hljómsveitarstjóri sem skilur eiginleika hljómsveitarinnar á afar djúpan hátt. Mér finnst það skína í gegnum konsertinn Processions að hann er á heimavelli í píanókonsertforminu, píanistinn sem aðalsöguhetjan og svo þessi einstöku litbrigði og ímyndunarafl í því hvernig hann nálgast hljómsveitina. Við höfum rætt um þristinn, þ.e.a.s. píanókonsert nr. 3, í meira en tíu ár og nú er hann loksins að verða að veruleika. Mér þykir mjög vænt um að vera treyst fyrir honum.“

En hvað skyldi fleira vera framundan hjá hinum nýja staðarlistamanni Sinfóníuhljómsveitarinnar? „Næsti vetur er sannarlega þétt skipaður,“ segir Víkingur. „Ég gef út nýja plötu helgaða Mozart í haust og verð staðarlistamaður hjá Útvarpshljómsveitinni í Frankfurt og í Southbank Centre í London. Svo kem ég fram í fyrsta sinn á BBC Proms með Philharmonia-hljómsveitinni 14. ágúst, fer í tónleikaferð um Asíu með Fílharmóníusveitinni í Hong Kong og um Evrópu með Camerata Salzburg, spila í Carnegie Hall og kem fram með mörgum frábærum hljómsveitum, meðal annars Tonhalle í Zürich, Fílharmóníusveitinni í Los Angeles, útvarpshljómsveitum Vínarborgar, Finnlands og Svíþjóðar og Fílharmóníusveit Tékklands. Svo eitthvað sé nefnt!“