EN

14. nóvember 2018

Íslendingasögur: Sinfónísk sagnaskemmtun- bein útsending

Fullveldishátíð í Eldborg 1. desember

Í tilefni 100 ára afmælis fullveldisins býður ríkisstjórn Íslands þjóðinni til veislu í Hörpu þann 1. desember. Hátíðarviðburður fullveldisdagsins er nýstárleg sýning í tali og tónum, byggð á sögum Íslendinga fyrr og nú, ofin í myndrænan ljósagjörning. Þar munu Sinfóníuhljómsveit Íslands, leikarar, söngvarar og einleikarar spinna sinfónískan sagnavef ásamt kórunum Schola cantorum og kór Menntaskólans við Hamrahlíð. Viðburðurinn er unninn í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Hörpu og RÚV og verður sjónvarpað í beinni útsendingu kl. 20:00 á RÚV.

Almenningi er boðið á sýninguna og getur hver og einn pantað tvo miða hér á vefnum eða í miðasölu Hörpu. Í boði eru 1.000 miðar.

Panta miða á tónleikana

 

Fullveldistónleikar í Eldborg 

Hátíðarviðburður fullveldisdagsins er nýstárleg sýning í tali og tónum, byggð á sögum Íslendinga fyrr og nú, ofin í myndrænan ljósagjörning. Eftir að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Margrét II. Danadrottning hafa ávarpað gesti mun Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt einleikurum, söngvurum og leikurum spinna sinfónískan sagnavef ásamt kórunum Schola cantorum og kór Menntaskólans við Hamrahlíð. Í sýningunni er horft fram á veginn til næstu 100 ára með sögu síðustu aldar í farteskinu. Í þessum sinfóníska vef verða fólgnar fjölbreyttar gersemar, t.d. verður frumflutt sigurlag samkeppni afmælisnefndar fullveldisafmælisins, „Landið mitt“ eftir Jóhann G. Jóhannsson, auk frumflutnings á verki eftir Báru Gísladóttur sem samið var gagngert fyrir þetta tilefni. Þá verður flutt ný útgáfa verksins Ad Genua eftir Önnu Þorvaldsdóttur, staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands, við texta Guðrúnar Evu Mínervudóttur. Þar er um að ræða frumflutning á Íslandi. 

Listrænn stjórnandi sýningarinnar er Arnbjörg María Danielsen sem ásamt danska video-listamanninum Lene Juhl Nielsen og ljósahönnuðinum Kasper Wolf Stouenborg annast sjónræna útfærslu og umgjörð sýningarinnar. Hljómsveitarstjóri er Bjarni Frímann Bjarnason.