EN

22. mars 2023

Íslensku tónlistarverðlaunin

Íslensku tónlistarverðlaunin fara fram í kvöld en margir samverkamenn Sinfóníuhljómsveitar Íslands eru tilnefndir í ár. Má þar nefna Sæunni Þorsteinsdóttur sellóleikara og Víking Heiðar Ólafsson píanóleikara sem bæði eru tilnefnd sem tónlistarflytjandi ársins í flokki sígildrar- og samtímatónlistar. Sæunn gegnir nú stöðu staðarlistamanns hljómsveitarinnar en Víkingur Heiðar gegndi sömu stöðu starfsárið 21/22.

Þá hljóta þrjú tónverk sem Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti á liðnu ári tilnefningu sem tónverk ársins í flokki sígildrar- og samtímatónlistar; FEAST eftir Daníel Bjarnason, Gemæltan eftir Veronique Vöku og Glerhjallar eftir Svein Lúðvík Björnsson. Píanókonsertinn FEAST hljómaði í fyrsta sinn á Íslandi á tónleikunum hljómsveitarinnar í flutningi Víkings Heiðars undir stjórn Daníels, en undanfarin ár hefur Daníel verið listamaður í samstarfi. Sellókonsertinn Gemæltan hljómaði svo í fyrsta sinn á heimsvísu á tónleikum sveitarinnar þar sem Sæunn Þorsteinsdóttir var í einleikshlutverki. Þá hljómaði Glerhjallar á tónleikum okkar á Myrkum músíkdögum 2022 en um frumflutning verksins var að ræða.

Dísella Lárusdóttir hlýtur tilnefningu fyrir söng ársins í flokknum sígild- og samtímatónlist en hún kom m.a. fram á tvennum tónleikum hljómseitarinnar á síðastliðnu ári.

Innilega til hamingju með tilnefningarnar öllsömul! Íslensku tónlistarverðlaunin hefjast kl. 20 í kvöld og og verður verðlaunaafhendingunni sjónvarpað í beinni útsendingu á RÚV.