EN

14. mars 2023

Syngjandi hljómsveitarstjórinn Barbara Hannigan snýr aftur

Barbara Hannigan og Sinfóníuhljómsveit Íslands á tvennum tónleikum í Hörpu og Hofi

Aðeins eitt ár er síðan kanadíska sópransöngkonan og hljómsveitarstjórinn Barbara Hannigan kom fyrst til landsins og sló eftirminnilega í gegn með hljómsveitinni á Listahátíð í Reykjavík vorið 2022. Gagnrýnandi Fréttablaðsins sagði meðal annars um þá tónleika: „Túlkunin var draumkennd og skáldleg, það ver einhver upphafin stemning yfir öllu saman,“ og „útkoman var sjaldheyrður unaður“.

Barbara Hannigan er nú væntanleg til Íslands á ný og heldur tvenna tónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu í Reykjavík 15. júní og í Hofi á Akureyri 16. júní.

Á efnisskrá tónleikanna verða þrjú hrífandi tónverk þar sem ljóðræna og leikgleði Barböru Hannigan fá að njóta sín jafnt í söng og hljómsveitarstjórn. Tvö verkanna teljast til öndvegisverka tónbókmenntanna, það eru hin svonefnda Kraftaverkasinfónía Josephs Haydn nr. 96 og fjórða sinfónía Gustavs Mahler, hin svokallaða Himnasælusinfónía, þar sem Barbara fer með sópranhlutverkið auk þess að stjórna hljómsveitinni. Á undan sinfóníu Mahlers hljómar svo nýtt og spennandi verk íranska tónskáldsins Golfam Khayam.

„Tónleikarnir verða algjör draumaendir á frábæru starfsári. Að fá Barböru Hannigan aftur til samstarfs er afar spennandi og mikill heiður. Hún hreif alla með sér þegar að hún vann með hljómsveitinni í júní á síðasta ári en hljómsveitin hreif líka Barböru. Afraksturinn var einstakur – tónlistin snerti alla sem á hana hlýddu. Það er mér mikið hjartans mál að Sinfóníuhljómsveitin sé ötul við að heimsækja landbyggðina og hlakka ég mikið til að ferðast með hljómsveitinni til Akureyrar og leyfa Norðlendingum og öðrum gestum að njóta þess að sjá og hlusta á þessa eintöku listakonu og Sinfóníuhljómsveit Íslands“

 

 segir Lára Sóley Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Barbara Hannigan hefur vakið feikilega aðdáun um heim allan undanfarin ár fyrir stórfenglegan söng en ekki síður fyrir hæfileika sína sem hljómsveitarstjóri. Hún hefur starfað með öllum helstu hljómsveitum heims og hefur frumflutt yfir 85 ný tónverk, meðal annars eftir György Ligeti og Hans Abrahamsen. Þá hefur hún sungið í helstu óperuhúsum heims, meðal annars hið krefjandi titilhlutverk í Lulu eftir Alban Berg. Barbara Hannigan hefur hlotið ótal verðlaun fyrir list sína, meðal annars Grammy-verðlaun fyrir plötuna Crazy Girl Crazy árið 2018 og hin virtu Léonie Sonning-verðlaun árið 2020.

 

Ekki missa af einni skærustu stjörnu klassískrar tónlistar um þessar mundir. Almenn miðasala hefst mánudaginn 20. mars.