EN

17. október 2018

Með skeiðklukkuna á tröllunum

Lovísa Fjeldsted segir frá móður sinni, Jórunni Viðar, og tónlistinni við Síðasta bæinn í dalnum

Í tilefni af aldarafmæli Jórunnar Viðar, sem fæddist 7. desember 1918, verður myndin sýnd í samvinnu við Kvikmyndasafn Íslands við lifandi hljóðfæraleik Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg þann 11. desember 2018. Nánar um tónleikana.

„Tónlistin var svo sjálfsögð. Hún var alltaf til staðar heima hjá mér,“ segir Lovísa Fjeldsted, sellóleikari, sem starfað hefur við Sinfóníuhljómsveit Íslands í nær 30 ár, en hún er dóttir Jórunnar Viðar tónskálds. Lovísa var ekki enn fædd þegar kvikmynd Óskars Gíslasonar, Síðasti bærinn í dalnum, var frumsýnd 1950, en Jórunn samdi tónlistina við myndina sem byggir á íslenskum þjóðsagnaar . Þetta var í fyrsta skipti sem íslenskt tónskáld samdi tónlist við leikna kvikmynd í fullri lengd. „Ég man eftir að hafa séð myndina sem barn,“ segir Lovísa. „Mér þótti hún ákaflega spennandi og skemmtileg, en gerði mér þó enga grein fyrir þeim stóra hlut sem móðir mín átti í verkinu,“ bætir hún við, og dregur fram blaðaúrklippu frá árinu 1989 þar sem Jórunn segir sjálf frá tilurð verksins. Við skulum grípa niður í frásögn Jórunnar sjálfrar, en viðtalið tók Pétur Már Ólafsson fyrir Þjóðlíf.


„Þar þurfti sextíu mínútur af tónlist. Þá sat ég með stoppúrið og mældi út því að allt varð að standast upp á sekúndu. Tónlistin var tekin upp á stálþráð og síðan „sínkróníseruð” við filmuna í London. Ég vandaði mig mjög mikið við þetta. Wagner hafði haft mikil áhrif á mig, sérstaklega hvernig hann málar hverja persónu með tónum. Það langaði mig til að gera við myndina. Börnin, sveitin eða bærinn og tröllin höfðu hver sína tónlist sem átti að einkenna hvert fyrir sig. Óskar notar mörg tæknibrögð eins og til dæmis þegar fólk hverfur. Músíkin verður að sýna galdrana með einhverju viðeigandi. Þegar börnin fara í kistuna og fljúga af stað verða tröllin, óttinn og flugið að fylgjast að í tónlistinni. Skemmtilegast var atriðið þegar vinnumaðurinn er í smiðjunni að smíða og breytist á meðan í tröll og sleikir svo glóandi járnið.“

 

Kynjaverur röskuðu umferð

Síðasti bærinn í dalnum var tímamótaverk, enda aðeins önnur íslenska kvikmyndin í fullri lengd. Þótt núorðið sé það alvanalegt að ýmsar kynjaverur sjáist á kreiki í íslenskri náttúru við tökur á kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, var það alls ekki svo um miðja síðustu öld, eins og Jórunn Viðar segir frá: 

„Myndin var öll tekin upp undir Esju. Tröllin voru sminkuð og klædd í búninga í Reykjavík og síðan keyrð þannig á opnum vörubíl á tökustað. Sagt var að eitt sinn ha drukkinn maður komið eftir veginum og rekið augun í tröllin á pallinum. Við það mun hafa snarrunnið af manninum, — hann hefur haldið að hann væri kominn með hressilegt deleríum! Þegar Óskar Gíslason frumsýndi Síðasta bæinn í dalnum var Austurbæjarbíó nýtekið til starfa. Vinsældir myndarinnar voru slíkar að biðröðin í miðasölunni náði út úr dyrum, meðfram húshliðinni, fyrir hornið og meðfram næsta vegg.“

Fullt út úr dyrum á frumsýningunni á Síðasta bænum í dalnum í Austurbæjarbíói

Listaverki bjargað frá glötun

Þessar miklu vinsældir urðu reyndar til þess að stefna kvikmyndinni hreinlega í hættu. „Filman slitnaði margoft og var límd saman, en stálþráðurinn, sem tónlistin var á, hélt sér alveg,“ útskýrir Lovísa. „Fyrir vikið var tónlistin ekki lengur í samræmi við myndina, jafnvel út í hött! Öll nákvæmnisvinna Jórunnar með skeiðklukku í hönd t.d. við að mæla sekúndubrot milli hamarshögga tröllsins í smiðjunni var unnin fyrir gýg, þegar filman sýndi allt annað atriði. Ég veit að Jórunni þótti mjög miður, þegar svo var komið að kvikmyndin og tónlistin pössuðu ekki lengur saman. Ekki var til önnur filma í stað þeirrar slitnu. Listrænt gildi tónlistarinnar hafði hreinlega eyðilagst,“ segir Lovísa, sem hlakkar því mikið til að heyra og sjá nýuppgerða útgáfu myndarinnar við lifandi utning Sinfóníuhljómsveitar Íslands á tónlist Jórunnar í desember. „Ég er innilega þakklát stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Kvikmyndasafni Íslands fyrir að gera þetta verkefni að veruleika,“ segir Lovísa, en í fyrsta skipti í áratugi hljómar nú tónlist Jórunnar óbjöguð við kvikmyndina í endurgerð sem Þórður Magnússon tónskáld hefur unnið. „Þetta var afar vandasamt verkefni, því handritið að tónlistinni hafði að stórum hluta glatast,“ segir Lovísa, „svo Þórður þurfti að skrifa upp tónlistina að miklu leyti eftir eyranu. Að auki þurfti hann að ráða ýmsar gátur – fylla í eyður og færa það aftur í fyrra horf sem fært var til þegar myndhlutinn var endurgerður. Þórður hefur unnið ótrúlega vinnu – ég myndi segja að hans aðkoma að verkinu valdi straumhvörfum!“


Victor Urbancic stjórnar upptöku á tónlist Jórunnar Viðar árið 1950

Músin, osturinn og pylsan

En hvort skyldi Lovísa vilja spila með á tónleikunum – eða sitja úti í sal og njóta kvikmyndarinnar? „Hefurðu heyrt um músina, sem fann þráð, sem á var fest oststykki vinstra megin en pylsa hægra megin? Músin gat ekki ákveðið sig, heldur horfði til skiptis: ostur-pylsa-ostur-pylsa, þar til hún fór úr hálsliðnum. Ég óttast svipuð örlög,“ segir Lovísa og hlær. „Það er ófært að spila með annað augað á nótnablaðinu og hitt á kvikmyndatjaldinu – ekki bara mjög slæmt fyrir sjónina, heldur er hætt við langvarandi hálsríg, eða jafnvel því að fara úr hálsliðnum eins og músin. Sennilega verð ég fyrst að fá að sjá og heyra endurgerðina áður en æfingar hefjast hjá hljómsveitinni og spila síðan með.“


Árna Heimi Ingólfsson, listrænan ráðgjafa Sinfóníuhljómsveitar Íslands, segja frá verkefninu sem hljómsveitin vann í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands