EN

8. apríl 2019

Nr. 10 - Hin banvæna sinfónía

Árni Heimir Ingólfsson segir frá Mahler og tíundu sinfóníu hans

Tíunda sinfónía Gustavs Mahlers er stórbrotið verk sem á sér forvitnilega og sérkennilega sögu. Það er á dagskrá hljómsveitarinnar fimmtudaginn 11. apríl, en hljómar alla jafna fremur sjaldan á tónleikum. Hver skyldi vera skýringin á því? „Skýringin er líklega fyrst og fremst sú að Mahler auðnaðist ekki að ljúka verkinu,“ segir Árni Heimir. „Hann hóf að semja sinfóníuna árið 1910 en lést frá henni ófullgerðri ári síðar.“ Árni Heimir útskýrir að allur gangur sé á því hvort ófullgerð verk séu yfirleitt tekin fullgild í tónlistarheiminum – eða hvort þau séu dæmd til að verða eins og neðanmálsgrein við ævistarf viðkomandi tónskálds. „Dæmi um hið fyrrnefnda er Ófullgerða sinfónía Schuberts, sem er fastur liður á verkaskrám hljómsveita, en sá er munurinn að Schubert lauk að fullu við tvo kafla í því verki. Mahler var aftur á móti búinn að skissa upp alla sinfóníuna, sem er í fimm þáttum, en átti eftir að ganga frá hljómsveitarútsetningu í stærstum hluta verksins,“ segir hann.

Mahler-nr.-10

Skissa Mahlers af þriðja kaflanum í tíundu sinfóníunni

Ekkjan tvístígandi

Nokkru eftir lát Mahlers fékk Alma, ekkja hans, tónskáldið Ernst Krenek til að ganga frá fyrstu tveimur þáttum sinfóníunnar og þeir voru fluttir nokkrum sinnum opinberlega á árunum upp úr 1920. „En Alma var tvístígandi um það hvort rétt væri að flytja verkið í þessu formi,“ segir Árni Heimir, „og svo fór að hún bannaði að þættirnir heyrðust framar. Það var ekki fyrr en enski tónlistarfræðingurinn Deryck Cooke gekk frá allri sinfóníunni til flutnings um 1960 að hún lét sannfærast og gaf leyfi sitt til flutnings. Nú eru sífellt fleiri þeirrar skoðunar að 10. sinfónía Mahlers sé lykilverk á ferli hans, og að jafnvel þótt hann hafi ekki náð að ljúka við öll smáatriði hafi Cooke af mikilli þekkingu tekist að færa það í sannfærandi búning. Sir Simon Rattle hefur til dæmis verið ötull talsmaður verksins og telur það að öllu leyti standast samanburð við aðrar sinfóníur Mahlers,“ segir Árni Heimir.

 

Á Spotify má hlusta á upptöku af tíundu sinfóníu Mahlers undir stjórn Sir Simon Rattle

Bölvun hinnar Níundu

Mahler er sagður hafa óttast það mjög að endast ekki ævin til að semja tíu sinfóníur. „Þessi árátta Mahlers var vægast sagt furðuleg,“ segir Árni Heimir. „En til að skilja hana verðum við að hafa í huga að á 19. öld þótti hið sinfóníska form hátindur alls sem gert var í tónlist. Af tónskáldum þótti Ludwig van Beethoven bera af og verk hans voru fyrirmyndir allra sinfóníuhöfunda á þessum tíma. Beethoven samdi aðeins níu sinfóníur eins og kunnugt er, og Óðurinn til gleðinnar í 9. sinfóníunni er glæsilegur lokapunktur á hans sinfóníska höfundarverki. Sum önnur tónskáld á 19. öld sömdu líka einmitt níu sinfóníur – til dæmis Schubert og Dvořák – en annars var algengara að tónskáld afköstuðu færri sinfóníum, meðal annars af því að formið krafðist svo mikils af þeim. Svo gerðist það árið 1896 að annar sinfóníumeistari, Anton Bruckner, lést frá 9. sinfóníu sinni ófullgerðri; dauðinn læsti í hann klónum áður en hann gat lokið við síðasta kaflann,“ segir Árni Heimir. „Hvernig sem á því stendur var Mahler þess fullviss að sér myndi aldrei auðnast að semja nema níu sinfóníur, örlögin myndu sjá til þess að eitthvað færi úrskeiðis ef hann svo mikið sem reyndi við þá tíundu. Hann var heltekinn af „Bölvun hinnar Níundu,“ ef svo má að orði komast,“ segir Árni Heimir.

Beethoven-Bruckner-Schubert-Dvorak

Beethoven, Bruckner, Schubert og Dvořák komust allir mislangt með að ljúka níundu sinfóníunni 

Reyndi að leika á örlögin

Þótt Mahler tæki „Bölvun hinnar Níundu“ greinilega alvarlega lagði hann ekki árar í bát, heldur reyndi að komast undan með klækjabrögðum. „Mahler reyndi að snúa á örlögin með því að gefa hinni eiginlegu níundu sinfóníu sinni, Das Lied von der Erde, ekki raðtölu og kalla verkið ekki sinfóníu. Skömmu síðar lauk hann við það sem hann kallaði „Sinfóníu nr. 9“, og með því þóttist hann hafa leikið á örlögin; nú gæti hann haldið tónsmíðunum áfram óttalaus. En örlögin gripu í taumana þrátt fyrir allt,“ segir Árni Heimir. En hvað skyldi hafa orðið um Bölvun hinnar Níundu – eru tónskáld enn skjálfandi á beinunum frammi fyrir henni? „Nei, til allrar hamingju held ég að flest tónskáld séu nú ekki mikið að velta þessu fyrir sér,“ segir Árni Heimir og hlær. „Sinfónían var reyndar ekki eins miðlæg í tónsköpun 20. aldar og þeirrar nítjándu, svo það reyndi ekki mikið á þetta. Sibelius og Prokofíev sömdu sjö sinfóníur, Rakhmanínov þrjár, en sum önnur lykiltónskáld – til dæmis Debussy og Ravel – sömdu engin verk í þessu formi. Aðeins Shostakovitsj fór langt umfram það sem tíðkaðist og samdi 15 sinfóníur. Þótt hann hafi verið undir sterkum áhrifum frá Mahler í tónlistinni átti það greinilega ekki við þegar kom að forlagatrú!“

Ólgandi tilfinningar og trylltar ástarjátningar

En hvernig verk er þá tíunda sinfónía Mahlers – verkið sem segja má að hafi kostað hann lífið? „Hún er stórbrotið verk, ástríðuþrungið, innilegt og kraftmikið. Það dylst engum sem heyrir þessa tónlist að hún speglar að einhverju leyti hið óstöðuga sálarlíf Mahlers síðasta árið sem hann lifði,“ segir Árni Heimir, en Mahler hafði nýverið komist að því að Alma, eiginkona hans, átti í ástarsambandi við arkitektinn Walter Gropius, og í kjölfarið leitaði hann ráða hjá sjálfum Sigmund Freud. „Í handritinu að tíundu sinfóníunni má lesa athugasemdir sem Mahler ætlaði Ölmu og virðist sem tónlistin hafi átt að vera eins konar ástarjátning til hennar. Á síðustu síðu lokakaflans skrifar hann til dæmis: „für dich leben! für dich sterben!“ (Að lifa fyrir þig! Að deyja fyrir þig!). Þessi ólgandi tilfinningaþrá gefur tóninn fyrir verkið í heild,“ segir Árni Heimir, sem hlakkar til að heyra verkið á tónleikum næstkomandi fimmtudag undir stjórn Osmo Vänskä. 

Nánar um tónleikana 11. apríl.