EN

28. apríl 2011

Sala miða á barnahátíð Hörpu

Sala miða á barnahátíð Hörpu sunnudaginn 15. maí hefst í dag á harpa.is

 

Harpa heldur upp á barnahátíð sunnudaginn 15. maí þar sem fjöldi viðburða verða í boði fyrir unga tónlistarunnendur.

Meðal viðburða eru tvennir tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Maxímús Músikús, hinnar tónelsku músar sem fengið hefur heimili í Hörpu. Tónleikar Maxímús fara fram í aðalsalnum Eldborg. Þeir eru ætlaðir yngstu börnunum og dagskráin byggist upp á stuttum, þekktum og aðgengilegum verkum. Hver miði á þessa tvennu tónleika Maxímús verður seldur á aðeins 100 kr. Sú upphæð er táknræn fyrir að senn lýkur aldarlangri bið eftir tónlistarhúsi á Íslandi.  

Fjölmargt annað verður á seyði á þessari barnahátíð Hörpu sem fram fer sunnudaginn 15. maí. Ekkert kostar inn á aðra viðburði í húsinu þennan dag, en þar má nefna sérstaka tónlistarhátíð barna sem fram fer í salnum Silfurberg. Þar munu yfir 300 börn og unglingar flytja brot af því besta sem þau hafa verið læra í grunnskólum og tónlistarskólum borgarinnar í vetur. Einnig verða litlir tónlistarviðburðir á víð og dreif um húsið sem verður sérstaklega opið fyrir almenning þennan dag, líkt og laugardaginn 14. maí. 

Sala miðanna á barnatónleika Maxímús Músíkús og Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefst  28. apríl kl.12:00 á www.harpa.is. Um þrjú þúsund miðar eru í boði. Ákveðið var að selja inn á tónleikana svo að forráðamenn gætu gengið að vísum sætum fyrir sig og börn sín og ekki skapist örtröð í salnum.