EN

  • tectonics_pass

15. apríl 2013

Sala hátíðarpassa hafin á Tectonics

Tectonics 18. - 20. apríl 2013

 

Tectonics tónlistarhátíð Sinfóníuhljómsveitar Íslands verður haldin í annað sinn dagana 18. til 20. apríl í Hörpu. Ilan Volkov, aðalstjórnandi hljómsveitarinnar er aðalhvatamaður og listrænn stjórnandi hátíðarinnar.

Tectonics er vettvangur tónlistarlegra tilrauna, framkvæmdum af einstaklega fjölbreyttum hópi flytjenda úr hinum ýmsu geirum tónlistarinnar. Framúrstefnufólk mun vinna með hinni „hefðbundnu“ sinfóníuhljómsveit, atvinnumenn munu vinna með áhugafólki, nemendur með reyndum tónskáldum.

Heiðursgestur hátíðarinnar verður Christian Wolff, eitt merkasta framúrstefnutónskáld Bandaríkjanna á tuttugustu öld. Fjölmörg verka hans verða flutt á hátíðinni.

Sinfóníuhljómsveitin mun frumflytja verk eftir Eyvind Kang, Jessiku Kenney, Hildi Guðnadóttur, Önnu Þorvaldsdóttur, Atla Ingólfsson, Þráin Hjálmarsson og Guðmund Stein Gunnarsson.

Meðal einleikara með hljómsveitinni verða Víkingur Heiðar Ólafsson og ísraelski klarínettuleikarinn Chen Halevi.

Bandaríski slagverksleikarinn, tónskáldið og myndlistarmaðurinn Eli Keszler verður áberandi á hátíðinni með innsetningu, spunagjörningi og tvennum tónleikum með Duo Harpverk. „People Like Us“ frá Bretlandi mun standa fyrir kvikmynda-gjörningum í samvinnu við íslenska tónlistarmenn. Einn fjölhæfasti tónlistarmaður Íslendinga, rafbassaleikarinn Skúli Sverrisson, mun koma fram í ýmsum hlutverkum á hátíðinni ásamt ýmsum öðrum íslenskum og erlendum tónlistarmönnum.

Tónleikar Tectonics hátíðarinnar munu fara fram í öllum fjórum tónleikasölum Hörpu, í hinum ýmsu opnu rýmum byggingarinnar og mun líka teygja sig út fyrir Hörpu, vefja sig utan um ljósastaura og grafa um sig í hótelgrunninum vestan við Hörpu.

Á vef hátíðarinnar er hægt að skoða dagskrána nánar - www.tectonicsfestival.com

Tectonics verður einnig haldin í Glasgow 11. og 12. maí undir listrænni stjórn Ilans Volkvs, en þá er hátíðin haldin á vegum BBC Scottish Symphony Orchestra.