EN

  • osmo_stor

31. janúar 2014

3. sinfónía Mahlers flutt á Listahátíð í vor

Miðasala hefst mánudaginn 3. febrúar kl. 12.00

Sinfóníuhljómsveit Íslands flytur Sinfóníu nr. 3 eftir Gustav Mahler undir stjórn Osmo Vänskä í Hörpu föstudaginn 23. maí kl. 19:30.  Bandaríska söngkonan Jamie Barton, Vox Feminae og Stúlknakór Reykjavíkur taka einnig þátt í þessum viðamikla flutningi á einu helsta meistaraverki Mahlers.


Þessi sinfónía verður ólík öllu öðru sem heimurinn hefur heyrt! Í henni finnur náttúran rödd sína.“ Þannig mælti Gustav Mahler um þriðju sinfóníu sína, sem flutt verður á opnunarhelgi Listahátíðar í Reykjavík þann 23. maí í Eldborg, Hörpu.Þessi stórfenglega tónsmíð hefur aðeins einu sinni áður hljómað á Íslandi enda krefst flutningur hennar mikils mannfjölda, um hundrað manna hljómsveitar auk tveggja kóra og einsöngvara. Tónlist þriðju sinfóníunnar er sannarlega fjölbreytt: dramatískir hápunktar, ljóðræn sveitastemning,  ljúfur englasöngur og kyrrlát hugleiðing við kvæði eftir Nietszche. 

„Það er sannkallað fagnaðarefni að mikilfenglegur heimur Mahlers fái að hljóma í allri sinni dýrð í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Listahátíð undir stjórn hins frábæra hljómsveitarstjóra Osmo Vänskä sem stendur á hátindi ferils síns um þessar mundir. Hann hefur getið sér gríðarlega gott orð víða um heim fyrir túlkun sína á Mahler og unnið stórvirki með Sinfóníuhljómsveitinni í gegnum árin“ segir Hanna Styrmisdóttir, stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík.

Bandaríska mezzósópransöngkonan Jamie Barton hefur vakið mikla athygli fyrir safaríka rödd sína og innlifaða túlkun. Hún bar sigur úr býtum í söngkeppninni BBC Cardiff Singer of the World sumarið 2013 og varð fyrsta söngkonan í sögu keppninnar til að hljóta bæði verðlaun keppninnar. Hún hefur meðal annars sungið við Metropolitan-óperuna í New York og Bæversku ríkisóperuna í München, og haldið einsöngstónleika í Carnegie Hall við frábærar undirtektir.

Margréti Pálmadóttur kórstjóra þarf vart að kynna fyrir íslenskum tónleikagestum. Hún hefur um árabil stýrt metnaðarfullu kórstarfi með kvennakórnum Vox feminae og Stúlknakór Reykjavíkur sem hér ljá sinfóníu Mahlers tæra tóna sína.

Osmo Vänskä var aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands árin 1993–96 og stýrði hljómsveitinni m.a. á merkum tónleikum í Carnegie Hall árið 1996. Vänskä hefur stjórnað fjölda annarra hljómsveita í fremstu röð, m.a. sinfóníuhljómsveitunum í Boston, Chicago og San Francisco, fílharmóníuhljómsveitunum í Berlín og New York. Nú nýlega hlaut hljóðritun, þar sem hann stýrir flutningi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Minnesota á sinfóníum nr. 1 og 4 eftir Sibelius,  Grammyverðlaunin sem veitt eru árlega fyrir frammúrskarandi tónlistarflutning.

Miðasala hefst mánudaginn 3. febrúar kl. 12 á hádegi.