EN

  • ungsveit_stor

31. mars 2014

Prufuspil í Ungsveit SÍ -

Umsóknarfrestur til 1. maí

Hljómsveitarnámskeið Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2014 stendur frá mánudeginum 15. september til sunnudagsins 5. október. Að þessu sinni verða verkefni hljómsveitarinnar Myndir á sýningu eftir Músorgskíj og sinfóníski forleikurinn Rómeó og Júlía eftir Tsjajkovskíj. Finnski hljómsveitarstjórinn Petri Sakari, fyrrum aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, stjórnar Ungsveitinni í ár, annað árið í röð og lýkur námskeiðinu með glæsilegum tónleikum í Hörpu, 5. október.

Prufuspil Ungsveitar SÍ 2014 verða haldin fyrir öll hljóðfæri mánudaginn 26. og þriðjudaginn 27. maí í Hörpu.
Nemendur þurfa að sækja um til að leika með hljómsveitinni, líka þeir sem spiluðu með síðast. Hægt verður að nálgast umsóknareyðublöð á heimasíðu SÍ frá og með 24. mars. Umsóknarfrestur er til miðnættis 1. maí.

Umsækjendur fá staðfestingu á að umsókn hafi verið móttekin. Prufuspilspartar verða sendir út til nemenda í tölvupósti þegar umsókn hefur borist en prufuspilstímar verða sendir öllum umsækjendum eftir að umsóknarfrestur rennur út.

Sérstök prufuspil verða haldin um stöðu konsertmeistara sem fara fram annan hvorn prufuspilsdaganna þ.e. 26. eða 27. maí. Hver umsækjandi þarf að leika fyrsta þátt úr fiðlukonsert nr. 3, 4 eða 5 eftir W.A. Mozart. Leikið er án píanómeðleiks.

Þeir sem ekki geta mætt í prufuspilið er bent á að senda inn myndbandsupptöku með hljóði í góðum gæðum á neðangreint netfang. Ekki er hægt að sækja um leiðarastöðu með innsendu myndbandi. Dómnefnd getur hins vegar farið fram á að hljóðfæraleikari sem sendir inn myndband verði látin leika um sæti innan sinnar deildar að hausti.

Nemendum sem standast prufuspil verður boðið sæti í Ungsveit SÍ 2014 og þurfa þeir að greiða 10.000 kr. skráningargjald sem er óafturkræft.
 
Vinsamlegast athugið að Ungsveit SÍ er aðallega hugsuð sem vettvangur fyrir samspil nemenda sem lokið hafa miðprófi hið minnsta. Mikil samkeppni er um sæti í Ungsveitinni og þess vegna er lykilatriði að koma vel undirbúin/undirbúinn til leiks.

Sækja umsóknareyðublað