Skólatónleikar á Selfossi með Maxa
Sinfóníuhljómsveit Íslands og Maxi með tvenna skólatónleika á Selfossi 23. apríl
Fjórða ævintýrið um tónelsku músina Maxa, Maxímús Músíkús kætist í kór, lítur dagsins ljós nú í vikunni. Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur tónleika með nýju ævintýri um Maxa og út kemur falleg bók með geisladiski hjá Forlaginu.
Í nýja ævintýrinu slæst Maxímús Músíkús í för með stórum hópi kórbarna sem eru á leið með rútu upp í sveit í æfingabúðir. Í æfingabúðunum kynnist Maxi mörgum krökkum og lærir skemmtilega söngva frá ýmsum löndum.
Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur fjölda skólatónleika bæði á Selfossi og í Reykjavík og mun leika fyrir um 7000 skólabörn í vikunni. Á skólatónleika á Selfossi koma skólahópar víðsegar að, meðal annars frá Vík í Mýrdal og utan úr Vestmannaeyjum.
Fjöldi kóra koma saman undir heitinu Barna- og unglingakór Íslands og taka þátt í tónleikunum. Þar má nefna Barnakór Selfosskirkju, Unglingakór Selfosskirkju, Drengjakór Reykjavíkur, Skólakór Kársness, Stúlknakór Reykjavíkur, Kór Öldutúnsskóla ásamt Gradualekór og Kórskóla Langholtskirkju. Alls koma því um 350 kórbörn á ýmsum aldri að verkefninu með Sinfóníuhljómsveitinni.
Sögumaður er leikarinn Valur Freyr Einarsson og hljómsveitarstjóri er Bernharður Wilkisson.
Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari og Þórarinn Már Baldursson víóluleikari eru höfundar ævintýranna um Maxímús Músíkús en bæði eru þau hljóðfæraleikarar í Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Ásamt skólatónleikum mun Sinfóníuhljómsveitin halda tvenna fjölskyldutónleika í Eldborgarsal Hörpu laugardaginn 26. apríl kl. 14 og kl. 16.
- Eldri frétt
- Næsta frétt