EN

30. maí 2014

Vinafélagið á Proms -hópferð

-Hópferð með fararstjóra til Lundúna

Vinafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands gengst fyrir hópferð til Lundúna dagana 21. - 24. ágúst í sumar. Föstudaginn 22. ágúst leikur Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum á hinni virtu BBC Proms tónlistarhátið í Royal Albert Hall.

Proms tónlistarhátíðin, sem haldin er af breska ríkisútvarpinu BBC, er átta vikna löng hátíð sem fer nú fram 120. sumarið í röð og samanstendur dagskráin af tugum hljómsveitartónleika auk minni kammertónleika, samtals um 100 viðburða.

Á dagskrá tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands verða bæði íslensk og erlend verk. Hljómsveitin leikur Geysi eftir Jón Leifs og Magma eftir Hauk Tómasson. Þá eru á efnisskránni Píanókonsert eftir Robert Schumann og eitt þekktasta verk tónbókmenntanna, 5. sinfónía Beethovens.

Hjómsveitarstjóri er Ilan Volkov og einleikari er bandaríski píanóleikarinn Jonathan Biss sem er einn af eftirtektarverðustu píanóleikurum sem komið hefur fram á sjónarsviðið á undanförnum árum.


Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur áður komið fram á tónleikum erlendis við góðan orðstír en þetta er í fyrsta skipti sem hún leikur á Proms.

 

Vinafélagið hefur hafið samstarf við ferðaskrifstofuna Vita vegna ferðarinnar og er fararstjórn í höndum Jóns Karls Einarssonar. Ferðin er opin öllum. 

Bókanir og allar nánari upplýsingar um ferðatilhögun má nálgast hér á heimasíðu Vita.