EN

16. júní 2014

Osmo Vänskä aðalgestastjórnandi næstu þrjú starfsár

Finnski hljómsveitarstjórinn Osmo Vänskä mun taka við stöðu aðalgestastjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands á starfsárinu 2014–15.

Vänskä hefur stjórnað öllum helstu hljómsveitum heims og hefur verið aðalstjórnandi. Minnesota-hljómsveitarinnar frá árinu 2003. Hann hefur hlotið mikið lof fyrir starf sitt með þeirri sveit, hefur m.a. hljóðritað með henni allar sinfóníur Beethovens og um þann flutning sagði gagnrýnandi New York Times að þar væri komin „hin fullkomna Beethoven-túlkun okkar tíma“. Fyrr á þessu ári hlutu Vänskä og Minnesota-hljómsveitin Grammy-verðlaun fyrir hljóðritun sína á sinfóníum Sibeliusar.Vänskä hefur hljóðritað fyrir sænska forlagið BIS um áratugaskeið, meðal annars tvo hljómdiska með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem hafa hlotið afbragðs dóma á heimsvísu. 

„Þetta er vitaskuld einstakt ánægjuefni fyrir hljómsveitina enda stendur Osmo Vänskä á hátindi ferils síns um þessar mundir. Að nafn Osmo sé tengt Sinfóníuhljómsveit Íslands með þessum hætti er mikil viðurkenning fyrir hljómsveitina og styrkir okkur listrænt.“

Segir Arna Kristín Einarsdóttir framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar.

Vänskä er íslenskum tónlistarunnendum að góðu kunnur. Hann var aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands árin 1993–96 og stýrði hljómsveitinni á merkum tónleikum í Carnegie Hall árið 1996. Frá árinu 2010 hefur hann komið hingað til lands árlega og er það mat manna að hljómsveitin hljómi sjaldan betur en undir hans stjórn. Eitt dæmi þess er túlkun hans á þriðju sinfóníu Mahlers sem var einn af hápunktum nýliðinnar Listahátíðar í Reykjavík.