EN

19. júní 2014

Nýtt starfsár 2014/15  kynnt til leiks

Fjölbreytt og spennandi dagskrá hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands starfsárið 2014/2015

Það er með stolti og tilhlökkun sem Sinfóníuhljómsveitin kynnir dagskrá næsta starfsárs í Hörpu. Að venju verður dagskráin afar fjölbreytt og spennandi og kemur hljómsveitin víða við. Boðið verður upp á litríka og spennandi blöndu af sígildum hljómsveitarverkum, einleikskonsertum, léttri klassík, kvikmyndatónlist og samtímatónlist, auk barna- og fjölskyldutónleika.

Framúrskarandi hljómsveitarstjórar, einleikarar og einsöngvarar koma fram með Sinfóníuhljómsveitinni. Þeirra á meðal eru Osmo Vänskä, Andrew Litton, Anna-Maria Helsing, Vladimir Ashkenazy, Rico Saccani, Pascal Rophé, Daníel Bjarnason,  Santtu-Matias Rouvali, Nicola Benedetti, Barnabás Kelemen, Víkingur Heiðar Ólafsson, Eva Þórarinsdóttir, Golda Schultz og Ólafur Kjartan Sigurðarson svo aðeins fáeinir séu nefndir.

Einn af hápunktum starfsársins er án efa heimsókn píanóleikarans Evgeny Kissin hingað til lands, en hann er goðsögn í tónlistarheiminum. Hann leikur píanókonsert nr. 2 eftir Rakhmanínov sem er einn dáðasti píanókonsert allar tíma. Einnig má nefna komu ástralska tenorsins Stuart Skelton en hann mun syngja titilhlutverkið í tónleikauppfærslu á Peter Grimes á Listahátíð í Reykjavík í vor. Á lokatónleika starfsársins sem helgaðir eru hátíðarhöldum í tilefni af 100 ára kosningarétti kvenna mun hin brasilíska Ligia Amadio standa á hljómsveitarstjórapallinum og stjórna verkum eftir konur.

Sinfóníuhljómsveit Íslands lætur sér fátt óviðkomandi á sviði tónlistar. Haldnir verða sérsakir bíótónleikar þar sem hljómsveitin spilar undir Chaplin-myndinni Modens Times og á Iceland Airwaves verður flutt verkið The Miner‘s Hymns eftir Jóhann Jóhannsson við kvikmynd Bill Morrison. Í febrúar  mun færeyska söngkona Eivör halda tvenna tónleika með hljómsveitinni í Norðurljósum í Hörpu.

Að venju verða Aðventutónleikar og Jólatónleikar Sinfóníunnar á sínum stað á aðventunni og nýju ári verður fagnað á Vínartónleikum sem hafa verið vinsælustu tónleikar hljómsveitarinnar frá upphafi.

Í áskriftarröð Litla tónsprotans er boðið upp á skemmtun og fróðleik fyrir alla fjölskylduna. Ástarsaga úr fjöllunum er á dagskrá í haust og á vormánuðum veður Dimmalimm og Svanavatnið flutt. Í fjölskylduröðinni er að finna marga skemmtilega viðburði sem vekja áhuga yngir tónlistargesta.

Endurnýjun fyrir næsta starfsár hefst í miðasölu Hörpu, miðvikudaginn 18. júní kl. 12.00.  

Sími 528 5050, midasala@harpa.is

Sala á nýjum kortum hefst 25. júní. Almenn lausamiðasala hefst 19. ágúst.

Þeim sem vilja endurnýja áskrift sína óbreytta er bent á vef hljómsveitarinnar, www.sinfonia.is. Þar er hægt að ganga frá henni á einfaldan og öruggan hátt með greiðslukorti.