EN

16. ágúst 2014

RÚV og SÍ styrkja samstarfið með nýjum samningi 

RÚV og Sinfóníuhljómsveit Íslands styrkja samstarfið með nýjum samningi 

 

  • Taka höndum saman um að efla miðlun fjölbreyttrar tónlistar til þjóðarinnar
  •  Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri og Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands undirrituðu nýjan samning fyrr í dag
  •  Tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar miðlað til þjóðarinnar í útvarpi, oftast með beinum útsendingum
  • Streymisútsendingar, fjölbreytt dagskrárgerð og sjónvarpsútsendingar
  • Næsta útsending frá stærstu tónleikum sveitarinnar til þessa en þeir verða í Royal Albert Hall næstkomandi föstudag


RÚV og Sinfóníuhljómsveit Íslands hafa gert með sér nýjan samstarfssamning þar sem tekið er höndum saman um að efla miðlun fjölbreyttrar tónlistar til þjóðarinnar en fyrri samningur rann út fyrir nokkrum árum. Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri og Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands undirrituðu nýjan samstarfssamning fyrr í dag ásamt Þresti Helgasyni dagskrárstjóra Rásar 1 og Margréti Ragnarsdóttur, markaðs og kynningarstjóra  Sinfóníunnar. Rás 1 mun senda út um þrjátíu tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar í vetur, flesta í beinni útsendingu. RÚV mun leggja áherslu á að kynna tónlistina sem í boði verður með margbreytilegum og áhugaverðum hætti. Tónleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar verða nú einnig aðgengilegir á vef ruv.is og stefnt er að því að hafa streymisútsendingar af tónleikum þar sem myndupptökum er miðlað samhliða hljóðrásinni. 

RÚV mun árlega sjónvarpa frá að minnsta kosti einum tónleikum hljómsveitarinnar en nú er í undirbúningi viðamikið verkefni sem tengist jólahátíðinni.  Ýmis fleiri verkefni eru í undirbúningi en bein útsending verður frá stærstu tónleikum í sögu Sinfóniuhljómsveitarinnar en þeir verða haldnir í í Royal Albert Hall næstkomandi föstudag.

„Það er með mikilli ánægju sem við göngum til samstarfs við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hljómsveitin hefur verið að gera frábæra hluti á undanförnum árum og það er okkur hjá RÚV sannkölluð ánægja að miðla því til allrar þjóðarinnar. Okkar kappsmál er að miðla framúrskarandi tónlist með fjölbreyttum og áhugaverðum hætti. Auk beinna útsendinga í útvarpi munum við leggja áherslu á að bæta dreifingu í gegnum sjónvarp og net,“ sagði Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri í tilefni af undirritun samningsins.

„RÚV og Sinfóníuhljómsveit Íslands eru grunnstoðir í íslensku menningarlífi sem stefna í sömu átt og vilja nýta fjölbreytta miðla til að ná til sem flestra landsmanna. Við hlökkum til nánara samstarfs við RÚV og finnum fyrir auknum áhuga á því frábæra efni sem hljómsveitin hefur fram að færa,” segir Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.