EN

20. ágúst 2014

Sinfóníuhljómsveitin leikur á Proms 22. ágúst

Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur á Proms í Royal Albert Hall í London 22. ágúst.


- Mikill heiður að leika á þekktustu tónleikahátíð heims 
- Stærstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar til þessa
- RÚV sendir beint frá London á Rás 1

Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur á BBC Proms-tónlistarhátíðinni undir stjórn Ilans Volkov. Tónleikarnir verða haldnir í Royal Albert Hall föstudaginn 22. ágúst nk. Það er mikill heiður fyrir Sinfóníuna að vera boðið að leika á Proms sem er án efa ein allra þekktasta og virtasta tónlistarhátíð heims. 


Proms  er nú  haldin  120. sumarið í röð af breska ríkisútvarpinu BBC. Hátíðin stendur í átta vikur og samanstendur dagskráin af tugum hljómsveitartónleika auk minni kammertónleika en samtals eru um 100 viðburðir á hátíðinni.Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands verða flutt íslensk og erlend verk; Geysir eftir Jón Leifs og Magma (Storka) eftir Hauk Tómasson sem eiga bæði vísun í íslensk náttúruöfl. Þá eru á efnisskránni Píanókonsert eftir Robert Schumann og eitt þekktasta verk tónbókmenntanna, 5. sinfónía Beethovens. Einleikari á tónleikunum er bandaríski píanóleikarinn Jonathan Biss.
Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur áður komið fram á tónleikum erlendis við góðan orðstír m.a. í Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi, Austurríki, Frakklandi og Bandaríkjunum en þetta er í fyrsta skipti sem hún leikur á Proms. 

„Það ríkir mikil eftirvænting hjá hljómsveitinni enda langþráður draumur að rætast og greinilegt að margir hafa áhuga á því að heyra okkur og sjá, því það stefnir í að verða uppselt í Royal Albert Hall sem tekur rúmlega 5000 manns. Efnisskráin sem við munum leika er afar glæsileg og fjölbreytt og gefur okkur tækifæri á að sýna hvað í okkur býr. Þetta er líka heilmikil landkynning. Við leikum tvö íslensk verk, Magma eftir Hauk Tómasson og Geysi eftir Jón Leifs sem bæði lýsa íslenskum jarðhræringum í tónum. Nú er bara að vona að Bárðarbunga fari ekki að gjósa. “Segir Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. 

Síðastliðið mánudagskvöld hitaði hljómsveitin upp fyrir Proms og hélt opna tónleika fyrir fullu húsi í Eldborg þar sem leikin var sama dagskrá og flutt verður í Royal Albert Hall á föstudaginn. Fyrir áhugasama má benda á að  RÚV  verður með beina útsendingu frá tónleikunum í London á Rás 1 og hefst útsendingin kl. 18.20. Breska ríkisútvarpið BBC 3 sendir einnig beint út frá tónleikunum.

Vefsíða hátíðarinnar: http://www.bbc.co.uk/proms/
Tónleikar SÍ: http://www.bbc.co.uk/proms/whats-on/2014/august-22/15130

Frekari upplýsinga vetir Margrét Ragnarsdóttir markaðs- og kynningarstjóri SÍ.