EN

30. október 2003

Kvikmyndatónleikarnir 6. og 8. nóvember

Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kvikmyndasafn Íslands bjóða upp á kvikmyndatónleika með grínkóngum þögla tímabilsins, Charles Chaplin, Buster Keaton og Harold Loyd, auk hátíðasýningar á "Lestarráninu mikla" eftir Edwin S. Porter, í Háskólabíói 6. og 8. nóvember við undirleik Sinfóníunnar. Hljómsveitarstjóri er Rick Benjamin. +++ FIMMTUDAGSKVÖLDIÐ 6. NÓVEMBER KL. 19.30: LESTARRÁNIÐ MIKLA OG HERSHÖFÐINGINN. "Lestarránið mikla" (10 mín.) eftir Edwin S. Porter frá árinu 1903 er ein af fyrstu kvikmyndum allra tíma, en í henni var lagður grunnurinn að klippitækni nútímans. Í myndinni gellur við fyrsti byssuhvellur kvikmyndasögunnar og fyrsta lestin kemur brunandi eftir hvíta tjaldinu, enda þustu skelfingu lostnir áhorfendur út úr kvikmyndasalnum fyrir 100 árum þegar myndin var frumsýnd. "Hershöfðinginn" (72 mín.) eftir Buster Keaton er frægasta kvikmynd hans í fullri lengd. Hún gerist á tímum Þrælastríðsins og segir frá verkfræðingnum Johnny Gray (Buster Keaton) ástinni hans, Annabelle og lestinni hans, Hershöfðingjanum. Í myndinni skiptast á hádramatískar senur og grínatriði og kvikmyndatakan þykir með miklum ágætum enn þann dag í dag, enda var "Hershöfðinginn" ein af eftirlætismyndum Busters sjálfs. LAUGARDAGURINN 8. NÓVEMBER KL. 15.00: BUSTER KEATON, HAROLD LLOYD OG CHARLES CHAPLIN. "Járnsmiðurinn" (1922) eftir Buster Keaton segir frá ævintýrum Busters á járnsmíðaverkstæði þar sem bæði hestar og Rolls Royce bílar koma við sögu. "Draugafár" (1920) með Harold Lloyd er sprenghlægileg drauga- og ástarsaga og rúsínan í pylsuendanum er "Ævintýramaðurinn" (1917) eftir meistara Chaplin og segir frá ævintýrum Litla Flækingsins þegar honum tekst að sleppa úr Sing-Singfangelsinu. Í tilefni af kvikmyndatónleikunum sýnir Ríkissjónvarpið "Einræðisherrann" frá 1940 eftir Chaplin sunnudaginn 9. nóvember kl. 12.50. Rick Benjamin Rick Benjamin, hljómsveitarstjóri, lagði stund á píanóleik við Juilliardskólann í Bandaríkjunum og vinnur jöfnum höndum sem hljómsveitarstjóri og fræðimaður. Hann hefur sérhæft sig í vinsælli 19. aldar tónlist og á yfir 700 tónlistarskor sem hann hefur notað við sýningu þögulla kvikmynda og leiksýninga. Hann stofnaði hljómsveitina The Paragon Ragtime Orchestra sem hefur komið fram í kvikmyndahúsum, leikhúsum og söngleikjahöllum, auk þess sem hann hefur gefið út fjölda geisladiska með hljómsveitinni. Við undirleik þögulla kvikmynda notar hann nær alltaf tónlistina í upprunalegri mynd. Rick Benjamin hefur stjórnað kvikmyndatónleikum meðal annars í The Kennedy Center, Alice Tully Hall, The Smithsonian Institute, Film Society of LincolnCenter. Hann starfar jafnframt sem tónlistarráðgjafi við gerð tónlistar í kvikmyndum, leikhús- og dansuppfærslum. Hann hefur ritað fjölda greina um vinsæla 19. aldar tónlist og starfar við tónlistardeild Burcknell háskóla í Lewisburg, Pennsylvaniu. Edwin S. Porter (1868 - 1941) Ewdin S. Porter var einn af frumkvöðlum nútíma kvikmyndagerðar. Hann starfaði sem sýningamaður og kvikmyndatökumaður í kvikmyndasmiðju Thomasar Alva Edison. Hann varð fyrir miklum áhrifum af kvikmyndum franska töframannsins og kvikmyndaleikstjórarns George Meliès sem hafði vakið verðskuldaða athygli fyrir kvikmyndir sínar. Fyrir tíð Meliès og Porters voru kvikmyndir samsettar af hreyfanlegum ljósmyndum sem sýndu einstakan atburð. Meliès gerði sér fyrstur manna grein fyrir því að kvikmyndaformið ætti að byggjast upp af einstökum myndskeiðum, líkt og samfelld atriði á leiksviði, og er því brautryðjandi listrænnar sviðsetningar í kvikmyndum. Edwin S. Porter var einna fyrstur til að nota nærmyndir og lagði grunninn að klippitækni eins og áhorfendur þekkja í dag með kvikmyndinni "Life of an American Fireman" (Dagur í lífi slökkviliðsmanns, 1903) og þróaði þessa tækni í "The Great Train Robbery" (Lestarráninu mikla, 1903). Í myndinni er atburðarrásin samfelld og jafnframt eru tvö eða fleiri atriði sýnd samhliða til að byggja upp spennu og dýpka frásögnina. Áhrifin voru dramatísk og áhorfendur höfðu aldrei séð önnur eins undur eins á hvíta tjaldinu. Porter stofnaði sitt eigið framleiðslufyrirtæki árið 1911 en starfaði síðar fyrir fyrirtækið Famous Players þar sem hann vann jöfnum höndum að kvikmyndagerð og þróun kvikmyndatækni. Charles Spencer Chaplin (1889 -1977) Kvikmyndir Chaplin eru fyrir löngu orðin viðurkennd listaverk og margar mynda hans eru frægustu perlur kvikmyndasögunnar, hvort sem um er að ræðaþöglar myndir eða talmyndir. Söguþráðurinn er jafnan einfaldur og látlaus að hætti, en hvert einasta smáatriði var afrakstur þrotlausrar fínvinnu sem tók Chaplin mörg ár að fullskapa. Snilli Chaplins liggur þó ekki aðeins í þeim fjölda meistaralegra gamanmynda sem hann gerði í hartnær fjóra áratugi, heldur líka í sköpun hans á litla Flækingnum sem er táknrænn fyrir andstæður tuttugust aldar; átakanna á milli hins efnislega og huglæga, einstaklings ogsamfélags, náttúru og borgarlífs.Chaplin lagði ríka áherslu á að gera Flækinginn að táknmynd baráttu mannkyns sem lætur aldrei bugast og heldur reisninni á hverju sem gengur. Þessi fyrsta andhetja kvikmyndanna er margræð í ærslafullum einfaldleika; spegill mannlegra tilfinninga sem hefur haft áhrif á persónusköpun margra þekktustu kvikmyndagerðarmanna sögunnar. BUSTER KEATON (1895-1966) Buster Keaton hefur verið kallaður Michelangelo þögla tímabilsins en hann hét réttu nafni Joseph Frank Keaton. Líkt og Chaplin ólst hann upp í fjölskyldu sem starfaði við söngleiki, en foreldrar hans voru þekktir skemmtikraftar. Faðir Busters, Joseph, lagði fyrir sig flókin og sérstæð dansatriði, en Myra, móðir Busters, var bæði dansari og saxafónleikari. Buster var elstur þriggja systkina sem öll tóku þátt í sýningum foreldra sinna, en mörg skemmtiatriðanna voru sérlega ofbeldisfull og beinlínis hættuleg. Faðir Busters lamdi hann með kústi á sviðinu og hrinti honum harkalega við mikinn fögnuð áhorfenda. Buster lærði því snemma að verja sig slæmum föllum og þróaði fimleikaatriði sín af einstæðri sjálfsbjargarhvöt og snilli, enda varð hann heimsfrægur fyrir þau síðar. Hann einsetti sér jafnframt að halda andlitinu á hverju sem gekk og tamdi sér hinn steinrunna svip sem einkenndi hann á fullorðinsárunum. Hann sagði síðar frá því að innra með sér hafi hann liðið vítiskvalir þegar hann kom fram með föður sínum. Buster fékk snemma áhuga á kvikmyndum og hóf samstarf með grínleikaranum Roscoe (Fatty) Arbuckle árið 1917. Fyrsta mynd þeirra hét "The Butcher Boy" (Slátrarasonurinn) og var gerð sama ár. Haustið 1919 ákvað Buster að reyna fyrir sér á eigin spýtur og naut aðstoðar kvikmyndaframleiðandans Schenck, sem áður hafði starfað með Arbuckle og framleiddi "The Butcher Boy". Schenck keypti gamla Chaplinmyndverið og nefndi það Keatonmyndverið. Hann réð Buster til starfa í myndverinu með því skilyrði að hann framleiddi átta myndir ári. Buster fékk allt það listræna og tæknilega frjálsræði sem hann óskaði eftir við gerð kvikmynda sinna og fékk auk þess að ráða í vinnu þá listrænu ráðunauta sem hann hafði mætur á. Árin í Keatonmyndverinu voru afar frjósöm og á því tímabili gerði hann frægustu myndir sínar. Fyrsta mynd Busters í fullri lengd, "The Three Ages" (Ást um aldir) frá 1923 var mjög vel tekið og þá hafði honum tekist að fullkomna þá þætti sem gerðu hann að lifandi goðsögn; ótrúleg áhættuatriði með tilheyrandi loftfimleikum og frumlegum tæknibrellum. Eitt af því sem einkennir kvikmyndir Busters eru tvöfaldir eltingaleikir. Í einni kvikmynda sinna er hann að elta býflugur á meðan villtir indíánar elta Buster. Slík stílbrögð voru Buster mjög hjartfólgin og notaði þau óspart. Í "The General" (Hershöfðingjanum) frá 1927 er Buster að höggva eldivið af mikilli einbeitingu til að halda gufubátnum sínum gangandi og tekur því ekki eftir því að stórsveit hermanna kemur aðvífandi. Í "Sherlock Jr" frá árinu 1924 leikur Buster sýningamann sem sofnar og dreymir að hann sé einkaspæjari sem nýtur mikillar kvenhylli. Kvikmyndin er draumurinn. Árið 1928 fór að halla undan fæti. Buster tapaði myndveri sínu í hendur Metro-Goldwyn-Mayer og á sama tíma átti hann í samskiptaörðugleikum við eiginkonu sína, Nathalie Talmadge. Buster leitaði sér huggunar í áfengi með þeim afleiðingum að eiginkona hans skildi við hann og fékk fullt forræði yfir sonum þeirra. Næstu árin var Buster á meðferðarheimilum en tókst ekki að halda áfengisneyslunni í skefjum. Hann kvæntist aftur en skildi. Á þessu myrka æviskeiði sínu gerði hann nokkrar talmyndir, en hljóðið var komið til sögunnar. Þær gengu ekki sem skildi og á fjórða áratugnum fékkst hann nær eingöngu við gerð ódýrra stuttmynda. Árið 1937 komst Buster upp úr þessari lægð. Hann fékk tækifæri til að skrifa handrit að grínmyndum fyrir Metro-Goldwyn-Mayer. Honum tókst vel upp og skrifaði meðal annars grínatriði fyrir Marx bræður í myndinni "At the Circus" ( Í sirkusnum) Árið 1940 kvæntist Buster þriðju eiginkonu sinni. Hún hét Elenor Norris og á árunum 1947 til 1954 komu þau hjónin reglulega fram í "Cirque Medrano" í París við góðar viðtökur áhorfenda. Buster starfði síðan við sinn eigin sjónvarpsþátt í Bandaríkjunum, "The Buster Keaton Show" sem kom honum á skrið á nýjan leik. Á sjötta og sjöunda áratugnum öðlaðist hann nýja kynslóð aðdáenda þegar myndir hans komust aftur í tísku. Buster naut óskorinnar hylli aðdáenda þar til hann lést árið 1966. HAROLD LLOYD (1893-1971) Harold Lloyd fæddist í Burchard í Nebraskafylki. Fjölskylda hans var kvikmyndaáhugafólk og eldri bróðir hans átti af stuttum ferli að státa sem gamanleikari í kvikmyndum og varð síðar einn af forstjórum Harold Lloyd- samsteypunni. Harold átti sér ungur draum um að verða sviðsleikari, helst í þungum, sígildum verkum. Hann fékk nokkur slík hlutverk og fékk aukatekjur sem statisti í kvikmyndum. Harold kynntist kvikmyndaframleiðandanum Hal Roach, skömmu eftir að Roach stofnaði fyrirtækið Rolin Film Company árið 1914. Hann áleit Harold ekki vera á réttri hillu sem sviðsleikari og bauð honum hlutverk í grínmynd. Harold sló til með semingi en fékk svo góðar viðtökur að hlutverkin urðu fleiri. Að lokum sá hann ekki fram á að draumar sínir um háalvarleg, tragísk hlutverk gætu ræst, enda streymdu tilboðin um að leika í grínmyndum til hans. Harold var mun lengur að ná tökum á persónusköpun og grínleik en Buster og Chaplin þar sem hann bjó ekki að söngleikjahefðinni eins og hinir síðarnefndu. Hann lék grínmyndapersónuna Willie Work í fyrstu en lagði það hlutverk á hilluna og skapaði persónuna Lonesome Luke. Hann lék í alls 71 kvikmynd sem Lonesome Luke á árunum 1915-1917 við mikinn fögnuð áhorfenda.Harold var þó ekki alls kostar sáttur við Lonesome Luke og ákvað að dýpka persónuna með því að setja á hana gleraugu og láta hana lenda í hinum ýmsu raunum sem steðja að nútímamanninum. Persónuna nefndi hann Gleraugnamanninn. Gleraugnamaðurinn minnir á margar hetjur fantasíukvikmyndanna sem voru allt að því súrrealískar og eltar af alls kyns furðuverum. Auk þess lék hann ýmis tilþrifamikil áhættuatriði ofan á skýjakljúfum og er eflaust frægastur fyrir atriðið þar sem hann hangir í vísum gríðarstórrar klukku í "Safety Last" frá 1923. Minnstu munaði að Harold glataði frægð og frama árið 1919 þegar sprengja,sem hann hafði ekki útbúið nógu vel, sprakk í hægri hönd hans. Hann fór í aðgerð til að bjarga hendinni en hún var honum alltaf til ama og varð hann að dylja hversu lemstruð hún var með því að klæðast hönskum. Fæstir aðdáendur hans vissu að hann var nær einhentur, enda var Gleraugnamaðurinn fyrst og fremst kraftmikill nútímamaður sem lenti í ótrúlegum hættum.