EN

13. janúar 2004

Lofsamlegir dómar þýskra gagnrýnenda

SÍ hélt í tónleikaferð til Þýskalands í desember og hélt þar alls fimm tónleika. Nú geta áhugasamir lesið nokkra af þeim dómum sem birtust í þýsku dagblöðunum, til dæmis þetta: "Eftir þriðja aukalagið standa áheyrendur upp úr sætum sínum og fagna með dynjandi lófataki fullir aðdáunar á þessari hljómsveit sem var ekki stofnuð fyrr en árið1950. Land sem hefur sama íbúafjölda og Münster á slíka hljómsveit sem að þremur fjórðu er skipuð heimamönnum. Til þess að segja þetta á íþróttamáli: Í Evrópubikarkeppninni myndu þessir Íslendingar ekki falla á gæðakröfum. Örugglega ekki." +++ Blaðaumfjöllun um Tónleikaferð Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Þýskalandi 7.–11.des. 2003. Skammstafanir: SÍ = Sinfóníuhljómsveit Íslands RG = Rumon Gamba LV = Lev Vinocour Hér er skrúfað fyrir kranann. Rætt við stjórnanda, einleikara og framkvæmdastjóra SÍ um ljóðrænu, meðalmennsku og framtíðina. (WZ-Interview) Sinfóníuhljómsveit Íslands er komin frá landi eldfjallanna og goshveranna og leikur á mánudagskvöld kl. 20 í Tonhalle. Bretinn Rumon Gamba er við stjórnvölinn, en hann er orðinn vinsæll eftir að hafa slegið eftirminnilega í gegn á Proms í London. Boðið er upp á 2. píanókonsert Rakhmanínovs, sinfóníu nr. 5 eftir Sibelius og íslenskt verk, “Frón” eftir Áskel Másson. Rússinn Lev Vinocour, sem sigraði í alþjóðlegu Klöru Schumann píanókeppninni 1994 og er nú orðinn þekktur víða um heim, er einleikari kvöldsins. Rætt var við Gamba, Vinocour og framkvæmdastjóra hljómsveitarinnar, Þröst Ólafsson um listir og menningarpólitík. WZ: Herra Gamba. Þér hafið reynslu af mörgum mismunandi hljómsveitum. Hvað finnst yður einkennandi fyrir hljóm íslensku sinfóníuhljómsveitarinnar ? G: Hljómurinn er kraftmikill og sveitin býr yfir miklum sveigjanleika í túlkun. Og áberandi er hversu frísklega hún tekst á við ný verk. WZ: Er hún þar með ákjósanleg fyrir nútíma tónlist ? G: Já alveg sérstaklega. WZ: Hvers konar tónverk er “Frón” eftir Áskel Másson ? G: “Frón” er rómantískt heiti á Íslandi. Verkið byggir á mörgum, íslenskum stefjum. WZ: Er tónlistin tónöl eða rómantísk ? G: Ekki rómatísk en tónöl í víðum skilningi. Mér finnst hún impressionistísk. WZ: Herra Ólafsson. Þér eruð framkvæmdastjóri og sjáið um fjármálin. Er sparað hjá ykkur eins og hjá okkur ? Ó: Nei. Ísland er nógu langt í burtu og ekki aðili að Evrópusambandinu. Við getum lagt mikið í menningarmálin. Menning er sjálfsmynd og land sem ræktar menningu sína styrkir sjálfsmyndina. WZ: Græðir hljómsveitin líka á því ? Ó: Já, mjög mikið. Nýlega var stöðugildum í hljómsveitinni fjölgað úr 70 í 80. Svo á fljótlega að rísa tónlistarhús í Reykjavík. WZ: Herra Vinocour. Þér hafið verið búsettur í Düsseldorf síðastliðinn áratug og samtímis kynnst alþjóðlegu tónlistarlífi frá sjónarhóli listamannsins. Hvar stendur Düsseldorf í því samhengi ? V: Hér og yfirleitt í löndum Evrópusambandsins er sparað á vitlausum enda og á því þrífst meðalmennskan. Menn virðast hafa lítinn áhuga á einhverju óvenjulegu hér í Düsseldorf. WZ: En Klöru Schumann keppnin, sem þér unnuð, var alþekkt. V: Já, píanóleikarar um allan heim vissu að Martha Argerich, Ashkenazy og Weissenberg sátu við sama borð. En einnig hér var skrúfað fyrir kranann. Fólkið sem tekur ákvarðanirnar virðist hafa eitthvað á móti því sem er framúrskarandi. WZ: Tónlistarsérfræðingar virðast jafnvel líka hafa eitthvað á móti Rakhmanínov. V: Já, annar píanókonsert Rakhmanínovs er (of – aths. þýð.) áheyrendavænn. Rakhmanínov var ekkert byltingartónskáld, en tónlist hans er sérstök og snilldarleg. Og það að mikið skuli vera hlustað á Rakhmanínov og hann mikið spilaður er líka gæðastimpill. (WZ - Düsseldorfer Kultur 5.12.03. Umræðum stýrði Lars Wallerang) KÖLNER PHILHARMONIE - tónleikar 7.desember 2003. Kölner Philharmonie 7.12.03. Á fullri ferð við norðurheimskautsbaug. SÍ hóf Þýskalandsferð sína í Philharmoniu-salnum í Köln undir stjórn Rumons Gamba. Litla eyjan í norðri getur (líka) boðið uppá tónlistarlega upplifun sem gerir mann agndofa. Tilvera hljómsveitarinnar er reyndar löngu kunn, sérstaklega eftir makalausar hljóðritanir hennar á öllum sinfóníum Sibeliusar. Ein þeirra stóð til boða eftir hlé (sú fimmta í Es-dúr op. 82) í Meisterkonzert-röðinni en tónleikarnir hófust á nýju verki eftir Áskel Másson. Að heitið “Frón” sé gamalt rómantískt nafn á Íslandi las maður í efnisskránni en bestu sögukennsluna gaf tónlistin sjálf. Gömul þjóðlög svifu milli hljóðfærahópanna, fornt kallaðist líflega á við framúrstefnulegt; myrk og torræð Saga, þar sem grillti í glæsikraft hljómsveitarinnar. Næstur á dagskrá var Lev Vinocour sem nýlega skaut upp á Schumann-himininn með ferskar hljóðritanir. Margir einleikarar hliðra sér hjá því að spila aukalög en Vinocour spilaði þrjú eins og ekkert væri – sjaldheyrð verk eftir Rakhmaninoff leikin af tilfinningu og fjölbreytni í styrkleika og blæ - áheyrendur voru himinlifandi.. Rakhmaninoff var ef til vill ekki nógu krefjandi verk fyrir jafn mikinn einstaklingshyggjumann og Vinocour er, með sína sérvisku og þrjósku, en samt var útkoman velheppnuð og áhugavert að heyra að áhersla var lögð á dulda fegurð, glæsilegar hljómahryðjur og langa spennuboga. Þegar fimmta sinfónía Sibeliusar hófst var hljómsveitin í essinu sínu og tók stefnuna norður á bóginn. Gamba hélt fast við tauminn á sínum mönnum - sem lumuðu á miklu styrkleikaframboði - og sleppti ekki takinu fyrr en í lokakaflanum og tókst þar með að ná fram rafmögnuðum hrolli um leið og hann leysti raddskrána úr viðjum og sleppti jarðskjálftanum lausum. Allar óskir voru svo uppfylltar með aukalaginu sem var Nimrod eftir Elgar. (Kölnische Rundschau 7.12.03 – Volker Fries) Hjóðmúrinn rofinn. Konsert Sinfóníuhljómsveitar Íslands i Philharmonie Köln. Helgisögur varpa gjarnan ljóma á fjarlægar eyjar, norræna goðafræðin hefur verið einkennandi fyrir Ísland. Eyjan fékk sjálfstjórn 1918, varð lýðveldi 1944 – það tekur tíma að öðlast menningarlegt sjálfstæði. Halldór Laxness var einn af fáum vinsælum fulltrúum rithöfundarstéttarinnar, núna hins vegar verða túlkandi listamenn oftar á vegi manns; þar má nefna að óperan í Bonn hefur á að skipa íslenskri sópransöngkonu (Sigrún Pálmadóttir - aths. þýð.). S.Í. var stofnuð árið 1950. Stöðugt vaxandi og næstum yfirþyrmandi orðstír hljómsveitarinnar er engu að síður undirstrikaður með nöfnum þekktra listamanna á borð við Anne-Sophie Mutter eða Vladimir Ashkenzy, sem reyndar er af íslensku bergi brotinn ( - !!! aths. þýð.) Hvað varðar stjórnendur er ekki verið að flagga þekktum nöfnum heldur hinum tæplega þrítuga Rumon Gamba. Hann ljómar af vinsemd og lífsgleði. Það hjálpar örugglega í umgengninni við hljómsveitarmennina sem ekki er hægt að vinna á sitt band nema með fullkomnnu handverki og listrænum yfirburðum. Þetta hvort tveggja sameinar Rumon Gamba á aðlaðandi hátt. Með yfirburða slagtækni náði hann flókinni hrynjandi fimmtu sinfóníu Sibeliusar á sitt vald. Tilfinningarnar streymdu í Rakhmanínov og hjörtunum blæddi hugsanlega þegar hann sprengdi hljóðmúrinn í hita leiksins ásamt sólistanum Lev Vinocour. Aukalögin sýndu ýmist ljóðræna varkárni eða brjálaða lífgleði og gerður skýr greinarmunur þar á. Sama mátti segja um píanistann sem að loknum konserti Rakhmanínovs lék í snarhasti þrjú aukalög - mjög fallega. Vinocour - sem hóf einleikaraferil sinn ungur að árum - býr yfir þeim hæfileika að ráða við stórfenglegt hljómabrim með höndunum og fylla síðan innantómt orðagjálfur með ljóðrænni kyrrð eins og sýndi sig í einbeittri byrjuninni á konsertinum. Fyrsta verk kvöldsins, íslenska verkið “Frón” eftir Áskel Másson, var hugsanlega andstutt tilbrigði af “Finlandiu” og hljómaði þægilega. Strax í því verki sýndi SÍ undraverða leikni. (G-Anzeiger Bonn, 9.12.03 - Christoph Zimmermann) Strengirnir glitruðu fyrir Jean Sibelius. Hljómsveit úr Reykjavík lék eftirminnilega í Philharmonie Köln. Þótt við höfum haft samband á tónlistarsviðinu bæði við Niðurlönd og England frá því á 11. öld, hefur tónlistarlífið í fámenninu á Íslandi verið töluvert lengur að þróast en það gerði í Mið-Evrópu. Þar höfðu stjórnmál líka letjandi áhrif. Það er því ekki undarlegt að fyrsta frambærilega hljómsveit eyjarinnar var ekki stofnuð fyrr en um miðja síðustu öld. Nú bauðst að hlýða á leik gestanna frá Reykjavík á Meisterkonzert í Philharmonie undir stjórn Rumons Gamba. Við þetta tækifæri var kynnt verk í einum þætti “Frón” – gamalt heiti á Íslandi - þar sem þjóðleg stef eru fléttuð í tónavef sem er kryddaður beinskeyttum slagverksáherslum. Það var við því að búast – tónskáldið, Áskell Másson, er atvinnumaður á ásláttarhljóðfæri. Píanóleikarinn Lev Vinocour, sem menntaður er í Sankti Pétursborg og Moskvu, kynnti sig í 2. píanókonsert Rakhmanínovs. Hann hegðar sér ekki fyrst og fremst sem fingrafimur draumóramaður heldur reynir hann að skyggnast bak við framhlið snillingsins á smekklegan hátt og með músikölsku innsæi. Þannig sýnir hann inn í tónlist Rakhmanínovs á rólegum heildarhraða um leið og hann kynnir sjálfan sig sem meistara hinna mjúku tóna. Þess vegna féll ekki í góðan jarðveg hvernig stjórnandinn vann gegn þessari viðleitni Rússans með síendurteknum þéttum og sterkum hljómsveitarinnskotum. Hljómsveitin kafaði rækilega ofaní fimmtu sinfóníuna eftir Sibelius. Ýmist voru það glitrandi strengirnir eða tréblásararnir sem lýstu upp hápunktana í tónlandslaginu þar sem maður leitaði að dýrðinni í mikilfengleik og ástríðu og fann hana. Hvað varðar aukalögin tvö, þá var fínleg mótun Nimrod kaflans sérstaklega hrífandi. (Nafn á blaði VANTAR - Hans Elmar Bach ) TONHALLE DÜSSELDORF – tónleikar 8.desember 2003. Hlýir hljómar frá Íslandi SÍ sem leikur undir stjórn Rumons Gamba í Düssedorf, er yngsta þjóðarhljómsveit Evrópu. Mikil tónlistariðkun og tónlistaráhugi hinna 280.000 íbúa eylandsins endurspeglast í hljómsveitinni sem er í ótrúlega háum listrænum gæðaflokki. Einleikari með hljómsveitinni er Lev Vinocour. Píanóleikarinn fæddist í Sankti Pétursborg árið 1970 og hlaut tónlistarmenntun sína þar og við Tschaikowsky-konservatoríið í Moskvu. Árið 1984 kom hann fyrst fram með Fílharmoníunni í Pétursborg undir stjórn Marwinsky. Síðan hefur hann unnið með mörgum þekktum hljómsveitarstjórum og frábærum hljómsveitum. Nefna má: Inbal, Bychkov, Fedossejew, Sinfóníuhljómsveit Vestur-Þýska Útvarpsins (WDR), Sinfóníuhljómsveitina í Köln, Tschaikowsky-Sinfóníuhljómsveitina í Moskvu og Tékknesku Fílharmoníuna í Prag. Vinocour hefur búið í Þýskalandi frá árinu 1996 ? þar sem hann vann meðal annars fyrstu alþjóðlegu Klöru Schumann píanókeppnina. Hér í borginni verður boðið uppá verk eftir Másson, Rakhmanínov og Sibelius. (Nafn á blaði VANTAR, en fréttin birtist 8. des eða fyrr.) Hljómurinn sprettur upp eins og goshver. Sinfóníuhljómsveit Íslands býr yfir kröftugum og hlýjum hljómi og það bullar og sýður í henni eins og í heitum, íslenskum goshver. Hljómurinn er eins og skapaður fyrir Sibelius. Hljómsveitin bauð upp á persónulega túlkun á 5. sinfóníu finnska síðrómantíska tónskáldsins, tengslin við arf Norðurlandaþjóðanna voru sjálfsögð og stjórnun Bretans Rumons Gamba var nákvæm og full af andstæðum. Það var ekki undarlegt að skynja af hve miklum innileik Íslendingarnir fluttu tónverkið “Frón” eftir landa sinn Áskel Másson. Á boðstólum var líka erki-rússneskt verk, annar píanókonsert Rakhmanínovs. Rússneski píanóleikarinn Lev Vinocour, sem búsettur er í Düsseldorf, lék glæsilegt einleikshlutverkið og hreif áheyrendur bæði með skaphita sínum og miklum tilfinningum. (Westdeutsche Zeitung- Düsseldorfer Nachrichten 10.12.03 - wall) RUDOLF-OETKER-HALLE BIELEFELD – tónleikar 9. des. 2003. Nöpur heiðríkja úr norðri. Litla Ísland vekur ekki bara athygli í fótboltaheiminum. Ásamt nýja aðalstjórnandanum sínum, Rumon Gamba, staðfesti SÍ á þriðjudaginn í Pro-Musica-Konzert-röðinni, að orðrómur um vaxandi gengi hennar á við rök að styðjast. Í upphafi hljómaði forleikur, sem Áskell Másson hafði skrifað sérstaklega fyrir þessa tónleikaferð hljómsveitarinnar. “Frón” hófst á glæsilegum trompetleik og breiddi út tilbreytingaríkt tónalandslag með þjóðlegu ívafi. Það er eins og sniðið fyrir Rumon Gamba svo hann geti dregið fram sérstök styrkleikaeinkenni þessarar vaxandi hljómsveitar eins og napra heiðríkju og gegnsæan tónvef og vakandi og sveigjanlega tjáningu allra hljóðfærahópa . Næst á efnisskránni var stórverk sem er ekki sérstaklega þekkt fyrir nepju og gegnsæi. En annar píanókonsert Rakhmanioffs var í góðum höndum hjá Íslendingunum. Píanóleikarinn Lev Vinocour nálgaðist þetta margþætta meistarastykki með hægð og leitaði af einlægni að ljóðrænu í tilfinningasömum stefjunum, án þess að detta ofan í sætsúpu tilfinninganna, sem útaf fyrir sig er töluvert afrek fyrir píanista. Leikur hljómsveitarinnar skapaði velkomnar andstæður við túlkun Vinocours sem leitaði inná við. Í fimmtu sinfóníunni eftir Sibelius sem er allt frá því að vera vinaleg og uppí að vera himnesk, sýndu blásararnir sérstaklega nákvæman og tjáningarfullan leik. Túlkun Rumons Gamba var sannfærandi. Hjarðljóðið var með ómótstæðilega glæsilegri sveiflu og söngvænt stef lokakaflans þrengdi sér af mikilli spennu gegnum ómstríð þrengslin. Gamba knúði hljómsveitina fram á ystu nöf í glæsilegum hljómakrafti. Það var svalandi að heyra að lokum dásamlega töfrahljóma Nimrods úr Enigma tilbrigðunum eftir Elgar. (Nafn á blaði VANTAR - Thomas Klingebiel) Hrjóstrugt tónalandslag og ljóðræn stef. Hráslagalegt loftslag, viðkvæmar sálir – það væri um það bil samnefnarinn fyrir þriðju Pro Musica-tónleikana í Oetkersalnum. Sinfóníuhljómsveit Íslands, frá lýðveldiseynni í Norður-Atlantshafi, kynnti sig undir stjórn Rumons Gamba með verkum tónskálda sem sömuleiðis eru upprunnin í löndum á jöðrum heimsbygggðarinnar. Þar fór fremstur í flokki Áskell Másson sem samdi tónalýsingu á Íslandi fyrir þessa Þýskalandsferð hljómsveitarinnar. “Frón” er skv. efnisskránni, gamalt, rómantískt heiti fyrir Ísland. Sá sem hafði búist við náttúruhljóðum, eldgosasprengjum eða gjósandi hverum er kynntur fyrir einhverju allt öðru. Trompetin hefja strax í byrjun að leika e.k. Dies irae sem tekur sífelldum breytingum og kallar fram skringilegar hljómamyndir áður en hávær tónlistin þagnar. Svona hafði maður ekki ímyndað sér Ísland, en hins vegar fengið að kynnast glæsilegri hljómsveit sem leggur áherslu á hárnákvæman leik eins og átti eftir að sýna sig í miklu jafnræði við Lev Vinocour sem hefur reyndar ekki enduruppgötvað Rakhmanínov (2. píanókonsertinn) en tekst þó að finna nýjar hliðar á þessu mjög svo vinsæla verki. Túlkendurnir - þannig hlýtur að eiga orða þetta þegar maður stendur frammi fyrir jafn spennandi samruna einleikara og hljómsveitar – byggja túlkun sína fyrst og fremst á taktföstum innblæstri (tónskáldsins).Ljóðrænn og rómantískur tónninn drottnar yfir þéttum, kröftugum og dramatískum hljómunum en hraða og styrkleikabreytingum er haldið í skefjum. RG lætur hljómsveitina frekar koma með glæsileg innskot hér og þar en að yfirtrompa stórkostlega. Sú tilfinning sem maður hafði - að hraðavalið væri mjög á hægari nótunum - fær ekki staðist. Heildarflutningstíminn var 36 mínútur og þar eru Íslendingarnir rétt aðeins yfir meðallagi. Lev Vinocour fellur að þessu eins og flís við rass. Leikur hans sameinar bæði syngjandi og næmi. Áslátturinn er yfirgnæfandi ljóðrænn og mjúkur en líka blæbrigðaríkur. Tilfinningalegri dýpt nær Vinocour líka án æpandi tilgerðar sem verkið getur auðveldlega endað í. Tilfinningasemi Rakhmanínovs kemur smátt og smátt í ljós; enn innilegri og dapurlegri en venjulega í miðkaflanum og yfir í gjósandi, dálítið þrjóskulega hvatvísi í lokakaflanum. Meistaraleg slaghörpudýrð - en án hroka snillingsins. Það skilar sér. Ánægjulegt að píanistinn skyldi fást til að leika þrjú aukalög (Tschaikowsky: “Desember” úr Árstíðunum og svo kafla úr “Barnamyndum” og “Lírukassaleikaranum” (eftir Schumann). Að lokum napurt, þéttofið verk með önugu og viðkvæmu tónmáli og ögn af þjóðlegum nótum - að fimmta sinfónía Sibeliusar skuli auk þess krefjast næstum óspilandi langra, syngjandi flaututóna ásamt nákvæmri spiccatoboga- eða con legno tækni af fiðluleikurunum og svo hins vegar hengiflugsáherslutækni af blásurunum, gleymist næstum því í hárnákvæmum, gegnsæjum og músikölskum flutningi SÍ Við fáum aftur þrjú aukalög: Þunglyndilegt glæsiverk Edvards Elgars ”Nimrod” og hvellan lokadans afgreiddan snarlega í tvöföldum pakka: “Á Sprengisandi” eftir S. Kaldalóns í útsetningu Páls Pampichler. ( Westfalen Blatt. 11.12.03 - Uta Jastwarner) Leiftrandi tónalandslag. SÍ. Lék í Tonhalle, Rumon Gamba var við stjónvölinn en hann hefur áður komið fram með Sinfóníuhljómsveitinni í Düsseldorf. Einleikari á píanó var Lev Vinocour. Rumon Gamba er áheyrendum enn í fersku minni eftir samvinnu sína við Sinfóníuhljómsveitina í Düsseldorf. Nú kemur hann frá norðurslóðum sem nýbakaður aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands að sýna afrakstur hlutfallslega skammrar samvinnu sinnar við þessa síður en svo kuldalegu hljómsveit. Í farangri tónlistarmannanna var ættjarðarlýsingin “Frón” eftir Áskel Másson, sérstaklega samið fyrir þessa ferð, 2. píanókonsert Rakhmanínovs og 5. sinfónía Sibeliusar. Um “Frón” – eiginlega gamalt, rómantískt heiti á Íslandi - væri hægt að segja, í yfirfærðri merkingu, að það krafðist ekki mikils, hvorki af hljóðfæraleikurunum né hlustendunum (leikur með þýska orðið “Fron” = skylduvinna - lagði ekki miklar kvaðir á þátttakendur ) impressionistískt tónalandslag málað eins og í kvikmynd og síður en svo framúrstefnulegt. Í lokin virðist verkið sökkva í djúpa náttúrukyrrð eins og hún kann að hafa komið tónskáldinu fyrir hugskotssjónir- fjarlægur þrumugnýr stóru trommunnar milli einmanalegs flaututóns og djúpra bassa. Kurteislegt klapp fyrir Herra Másson áður en gestirnir frá Íslandi - og sérstaklega Lev Vinocour –slógu á allt aðra strengi. Vinocour var einleikari í píanókonsert Rakhmanínovs og lék þakklátt hlutverk sitt með ódulinni aðdáun. Hann byrjaði þykk hljómaslögin óvenjulega hægt, en hélt síðan virðulegum hraða og strengirnir, brennandi af þrá hjartans, slógust í för með honum. Almennt má segja að samspil hljómsveitar og einleikara hafi verið til fyrirmyndar. Reyndar var sambandið ekki alltaf alveg afslappað, en það var alltaf hægt að hressa uppá það án mikillar fyrirhafnar - með vakandi athygli Vinocours í fyrsta kaflanum og af hálfu Gamba í 2. kaflanum. Í flutningnum á fimmtu sinfóníu Sibeliusar var auðheyrt að hljómsveitin leggur allt sitt traust á Gamba, því hljómsveitarmenn brugðust skjótt við blæbrigðaóskum stjórnanda síns og lögðu fram leiftrandi hljómateppi fyrsta kaflans. Á móti bauð Gamba hljómsveitini sinni styrka stjórn þegar á þurfti að halda, eins og til dæmis þegar fiðlur og víólur voru við það að týnast í fyrsta “arco” annars kaflans eða þegar öll strengjasveitin var að drukkna í óendanlegum synkópuflaumi lokakaflans. Í stuttu máli: Hrífandi samspilskvöld. (Düsseldorfer Stadtpost. (Rheinische Post) 10.12.03. - Peter Reichelt) STADTHALLE OSNABRÜCK. Tónleikar 11. des. 2003. Eins og goshver sem gæti byrjað að gjósa á næsta andartaki. Sinfóníuhljómsveit Íslands sýnir ótrúlega leikni og tónnæmi í Borgarsalnum í Osnabrück í Meisterkonzert-röðinni. Ísland er ekki eyja segja Íslendingar heldur lítið meginland. Meginlands-Íslendingarnir sem eru 280. 000 talsins hafa einfaldlega sjálfstraust. Og þeir byggja það reyndar á ótrúlegum afrekum. Ekki eingöngu í tækni heldur líka í menningu sem er umfangsmeiri en bara Halldór Laxness. Og í Borgarsalnum í Osnabrück birtust 80 áður óþekktir sendifulltrúar þessarar menningar og buðu uppá glæsitónleika. Sinfóníuhljómsveit Íslands með breska stjórnandann Rumon Gamba í broddi fylkingar heldur á lofti ótrúlegu músíkaliteti heimalandsins. Og hvernig hefst gestaleikur Íslendinganna í Osnabrück? Með átthagafræði. Með tónverkinu “Frón” sem íslenska tónskáldið Áskell Másson hefur samið sérstaklega fyrir þessa ferð hljómsveitarinnar sem lýkur reyndar hér í Osnabrück. Maður upplifir brak og bresti jöklanna þegar kontrabassar og pákur hljóma í þessum nútíma-ómstríða “þjóðsöng” tónskáldsins. Þó viðbrögð ellefu hundruð áheyrenda séu kuldaleg þarf hljómsveitin engu að kvíða. Því nú kemur Rússinn Lev Vinocour og spilar þekktan ísbrjót og hjartaknúsara: píanókonsert nr.2 eftir Rakhmaninoff. Það gerir hann af miklum eldmóði og sérstaklega í háu áttundastökkunum í lokin tekst honum að skapa tilfinningu mitt á milli gæsahúðar og kvíða. Hrifning áheyrenda skilar sér í fagnandi lófataki - þetta er Rakhmanínov ! Stundum hegðar Vinocour sér eins og annar stjórnandi og krefst meiri tilfinninga af strengjunum á bak við Rumon Gamba. Það er líka hægt að segja þetta á jákvæðan hátt: Hér leggur píanistinn allt sitt í hendurnar á hljómsveitinni. Á hinn bóginn má hljómsveitin þakka Vinocour, því það er hann sem æsir upp hrifningu áheyrenda fyrir hlé. Síðan kemur 5. sinfónía Sibelíusar í hetjutóntegund Beethovens – Es-dúr og og næsta hálftímann verðum við vitni að meistaralegum tökum hljómsveitar- innar á viðfangsefninu. Hún hefur tök á öllu óvæntu sem þessi sinfónía býður uppá, líkt og goshver á suðupunkti. Meira að segja daufur hljómburður “Evrópusalarins” breytir engu þar um: SÍ týnir sér ekki í skuggalegum hljómaheimi Finnans, heldur nýtur hans til fulls. Blásararnir eiga sérstakt hrós skilið fyrir glæsilega leikin síendurtekin trompet- og hornaköll. Eftir þriðja aukalagið standa áheyrendur upp úr sætum sínum og fagna með dynjandi lófataki fullir aðdáunar á þessari hljómsveit sem var ekki stofnuð fyrr en árið1950. Land sem hefur sama íbúafjölda og Münster á slíka hljómsveit sem að þremur fjórðu er skipuð heimamönnum. Til þess að segja þetta á íþróttamáli: Í Evrópubikarkeppninni myndu þessir Íslendingar ekki falla á gæðakröfum. Örugglega ekki. (Neue Osnabrücker Zeitung 13.12.03 Michael Krechling) Tónleikar S.Í. voru allir haldnir innan áskriftarraða í viðkomandi tónlistarhúsum (aths. þýð).