19. mars 2004
Helikon vespan flögrar um í apríl
Ef skipað yrði í embætti sendiherra fyrir einstök hljóðfæri, væri Christian Lindberg að öllum líkindum hlutskarpastur þegar kæmi að því að útnefna sendiherra básúnunnar. Christian Lindberg er væntanlegur til landsins í næstu viku og mun leika, og stjórna á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Verkin sem hann mun leika eru Helikon Wasp, básúnukonsert eftir hann sjálfan og Ocean child, hljómsveitarverk eftir Jan Sandstöm, auk sinfóníu nr. 1 eftir Jean Sibelius. Frami Christians Lindbergs í tónlist hefur verið óvenjulegur. Hann byrjaði ungur að semja rokktónlist en sextán ára þótti honum rétt að hefja nám í tónfræðum og tónsmíðum. Tveimur árum síðar samdi hann sitt fyrsta verk en varð fyrir svo gríðarlegum vonbrigðum þegar hann heyrði það flutt á æfingu að hann stakk verkinu tafarlaust undir stól og sór þess dýran eið að semja aldrei tónlist aftur. Þess í stað hvatti Lindberg aðra höfunda til þess að semja fyrir básúnu, hljóðfærið sem hann hafði fengið einstakt dálæti á, og tók auk þess sjálfur til við að umskrifa eldri verk og nýrri fyrir básúnu. Í dag lætur nærri að Christian Lindberg hafi útsett um 100 verk fyrir hljóðfærið og um 80 einleiksverk hafa verið tileinkuð honum. Lindberg lítur þó ekki aðeins á sig sem tónlistarmann, heldur einnig leikara sem hefur það hlutverk að miðla sögu til áheyrenda í gegnum tónlist. Hann kemur gjarnan fram í búningum sem hæfa verkunum sem hann leikur til þess að undirstrika þetta enn frekar. Þegar hann leikur Mótórhjólakonsertinn er hann eðlilega klæddur í leðurgalla en birtist öllu jöfnu í trúðsbúningi þegar hann leikur Sequenza V, verk eftir Lucian Berio se fjallar um minningar hans um trúð. Tónskáldið Christian Lindberg hafði þó ekki sagt sitt síðasta. Þrátt fyrir eiðinn forðum, skynjaði hann í samtölum við tónskáld og þá sérstaklega vin sinn, Jan Sandström, að það væri alls ekki óvenjulegt að verða fyrir vonbrigðum með eigin verk þegar þau væru leikin fyrsta sinni. Nauðsynlegt væri að gefa verkunum tóm til þess að öðlast líf og tónskáldinu tækifæri til þess að venjast því sem hann hafði samið. Stundum þyrfti tíu rennsli til þess að átta sig á því hvernig leika ætti verkið. Jan Sandström sagði við Lindberg: " Hvað sem þú gerir, reyndu ekki að sanna neitt eða sýna snilligáfu. Skrifaðu bara það sem kemur upp í hugann án tillits til hvað þér finnist gott eða slæmt þá stundina. Svona líkt og þegar fimm ára barn teiknar mynd." Eftir þessum leiðarvísi hóf Lindberg smíði verksins Arabenne sem fékk einstakar móttökur þegar það var frumflutt, bæði frá áheyrendum sem gagnrýnendum. Þetta kom Christian Linberg skemmtilega á óvart og fljótlega hafði hann fengið tilboð um að semja tvo konserta fyrir básúnu auk þess sem BIS-útgáfan leitaði eftir því að fá að gefa út Arabenne. Christian Lindberg hefur í dag samið fjölda verka sem leikin eru reglulega á tónleikum og mörg þeirra hafa verið tekin upp og fyrirhugðar eru upptökur á öðrum. Þökkum fyrir að fyrstu viðbrögð skáldsins við eigin tónsmíðum hafi ekki verið endanlegri en raun ber vitni. Christian Lindberg kemur nú í fjórða sinn til tónleikahalds með SÍ, hann hefur tvívegis flutt básúnukonsert Áskels Mássonar auk Mótothjólakonsertsins eftir Sandström. Í dag er hann aðalhljómsveitarstjóri Kammersveitarinnar í Sundsvall og Blásarasveitarinnar í Stokkhólmi.