8. nóvember 2004
Kvikmyndatónleikar eru einstakur viðburður
Hinir árlegu kvikmyndatónleikar, sem haldnir eru í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands, eru einstakur viðburður í starfsári hljómsveitarinnar. Að venju eru fimmtudagsbíótónleikarnir helgaðir einni af stórbrotnari perlum kvikmyndasögunnar á meðan léttleikinn og fjölskyldustemmningin fær að ráða á laugardagstónleikunum. Fimmtudaginn 11. nóvember verðu hið þögla meistaraverk Carls Theodors Dreyers, “Píslarsaga Jóhönnu af Örk” (La Passion de Jeanne d´Arc) frá árinu 1928 á dagskrá. Tónlistin við kvikmyndina er eftir bandaríska tónskáldið Richard Einhorn. 13. nóvember klukkan 15.00 verða myndirnar “Klukkan tifar!” (1923) með Harold Lloyd og “Hundalíf”(1918) eftir Chaplin á boðstólum við undirleik SÍ en báðir tónleikarnir vera undir stjórn þýska hljómsveitarstjórans, Frank Strobel, sem er orðinn býsna hagvanur á bíótónleikum hérlendis.+++ Richard Einhorn, sem er víðkunnur tónsmiður, samdi tónlistina við Píslarsögu Jóhönnu af Örk -“Voices of Light”. Verkið er skrifað fyrir einsöngvara og hljómsveit. Hann hefur samið fyrir New York City Ballet og gert tónlist við Óskarsverðlaunamyndir, en sjálfur hlaut hann finnsku Juissiverðlaunin fyrir bestu kvikmyndatónlistina við “Fire-Eater” (1998). Einhorn kemur hingað til lands í vikunni fyrir kvikmyndatónleikana og verður með fyrirlestra í Listaháskólanum, auk þess sem hann tekur þátt í pallborðsumræðum. Í tilefni af kvikmyndatónleikunum mun Ríkissjónvarpið sýna tveggja klukkutíma langan heimildarþátt um Dreyer, “Myten Dreyer” (1996) 10. nóvember kl. 22.40. Sama dag kl. 16.30 verða pallborðsumræður í Norræna Húsinu helgaðar Dreyer, norrænni kvikmyndagerð og kvikmyndatónlist. Frank Strobel hljómsveitarstjóri og tónsmiður og Richard Einhorn verða með stutta fyrirlestra, auk annarra. Laugardaginn 13. nóvember bregða þeir félagar Charles Chaplin og Harold Lloyd á leik á hvíta tjaldinu við undirleik hljómsveitarinnar. Kvikmyndatónleikar eru einstök skemmtun sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.