16. nóvember 2004
Háskólaforleikurinn, svanasöngur Strauss og frumflutningur á 1. sinfóníu Elgars
Fimmtudaginn 18. nóvember kl. 19.30 stígur danska sópransöngkonan Inger Dam Jensen á svið með SÍ. Hún mun flytja eina af "fallegustu erfðaskrám tónlistarsögunnar" hljómsveitarsöngvana Vier letzte Lieder, en Richard Strauss samdi þá sumarið 1948, ári fyrir andlát sitt, og vissi að hverju stefndi. Rumon Gamba stýrir 1. sinfóníu samlanda síns Elgars, sem fær að hljóma í fyrsta sinn á fjölum Háskólabíós. En efnisskráin hefst á háskólaforleik Brahms sem glaðværir stúdentar hafa sungið æ síðan við fjölmörg tækifæri. +++ Rumon Gamba, Rumon Gamba, aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, nam við Konunglegu Tónlistarakademíuna undir handleiðslu Colin Metters og varð fyrsti nemandinn í hljómsveitarstjórn sem vann til DipRAM-verðlaunanna. Skömmu síðar sigraði hann í keppni ungra hljómsveitarstjóra á vegum BBC og Loyds bankans og varð í framhaldi af því aðstoðarhljómsveitarstjóri Fílharmóníusveitar Breska ríkisútvarpsins. Á fjórum árum stýrði Rumon Gamba hljómsveitinni á opinberum tónleikum, við upptökur og á fjölda útvarps- og sjónvarpstónleika, þar með talið PROMS tónleikum BBC. Tónleikaröð með öllum níu sinfóníum Malcolm Arnolds og afmælistónleikar í tilefni af áttræðisafmæli hans, á síðasta ári, þóttu enn ein skrautfjöður í hatt hins unga hljómsveitarstjóra. Rumon Gamba hefur komið fram sem gestastjórnandi með flestum hljómsveitum Bretlandseyja og eru þá meðtaldar hljómsveitir Breska ríkisútvarpsins. Hann hefur starfað með fjölda þekktra hljómsveita á meginlandinu svo sem: Fílharmóníusveitinni í München, Útvarpshljómsveitinni í Berlín og Sinfóníuhljómsveitinni í Barcelona auk þess að hafa nýlega þreytt frumraun sína með Fílharmóníusveitinni í New York, Sinfóníuhljómsveitinni í Toronto sem og Sinfóníuhljómsveitunum í Sydney og Melbourne. Rumon Gamba hefur nýlega gert fastan samning við Chandosútgáfuna en áður hefur hann tekið þátt í upptökum á fjölda geisladiska fyrir fyrirtækið með Fílharmóníusveit Breska ríkisútvarpsins. Má þar m.a. nefna upptökur á verkum Arnold, Bax, Auric, Vaughan-Williams, Eric Coates, Bliss, svo og kvikmyndatónlist eftir Alwyn og Richard Rodney Bennets. Rumon Gamba tók við stöðu aðalhljómsveitarstjóra og listræns stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands í september 2002. Inger Dam-Jensen Danska sópransöngkonan Inger Dam-Jensen vakti heimsathygli þegar hún bar sigur úr býtum í hinni virtu söngkeppni í Cardiff árið 1993. Sama ár réðst hún til starfa við Det Kongelige Teater og hefur síðan hrifið óperugesti þar í burðarhlutverkum í óperum eftir m.a. Mozart, Donizetti og Richard Strauss. Hún er einnig vinsæll gestur í ýmsum óperuhúsum, svo sem Covent Garden í London og Bastilluóperunni í París. Á undanförnum árum hefur Inger Dam-Jensen komið fram með mörgum af frægustu sinfóníuhljómsveitum heims. Hún hefur sungið Des Knaben Wunderhorn með New York fílharmóníunni undir stjórn Sir Colins Davis, Les illuminations með Berlínarfílharmóníunni undir stjórn Bernards Haitinks, aðra sinfóníu Mahlers með Philharmonia Orchestra undir stjórn Christophs von Dohnányis og verkið sem hún syngur á fyrstu tónleikum sínum með Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur hún m.a. flutt með Tékknesku fílharmóníunni undir stjórn Vladimirs Ashkenazys. Inger Dam-Jensen er einnig mikilvirk á sviði ljóðasöngs og hefur til að marka haldið tónleika í Wigmore Hall og á Promshátíðinni í London og sungið í beinni útsendingu hjá BBC og Radio France. Meðal fjölmargra hljómdiska með söngkonunni má benda á disk frá Naxosútgáfunni með sönglögum Carls Nielsens. Johannes Brahms Myndin af yfirmáta alvarlegum, þungt þenkjandi þýskum snillingi á greiða leið í huga manna þegar nafnið Johannes Brahms ber á góma, en hann átti sér, eins og við öll, auðvitað fleiri en eina hlið. Þegar honum var sá sómi sýndur árið 1879 að vera gerður að heiðursdoktor við háskólann í Breslau, sendi hann skólanum þakkarkveðju á póstkorti og hélt að málið væri þar með úr sögunni. En eftir að honum hafði í allri vinsemd verið bent á að skólinn hefði nú vænst þess að fá öllu veglegri þakklætisvott í tónlistarformi, settist hann niður og samdi verk með hinum afar virðulega titli Akademískur hátíðarforleikur. Þetta gladdi vitanlega háskólakennarana og þeir hafa vafalaust búist við því að fá að heyra hálærða doktorsritgerð í tónum, með sýnikennslu í öllum kúnstarinnar reglum. Á daginn kom hinsvegar að Brahms hafði ákveðið að slá öllu upp í kæruleysi, án þess að draga nokkuð úr þeim miklu kröfum sem hann gerði ætíð til sjálfs sín, og byggja verkið á vinsælum stúdentadrykkjuvísum. Forleikurinn iðar bókstaflega af gleði og kátínu og það kunnu stúdentarnir í Breslau svo sannarlega að meta. Þeir sungu hástöfum með í Gaudeamus igitur þegar verkið var frumflutt í janúar 1881. Richards Strauss Það svífur allt annar andi yfir vötnum í svanasöng Richards Strauss, Vier letzte Lieder. Þessir fjórir dáðu hljómsveitarsöngvar eru einhver fallegasta erfðaskrá tónlistarsögunnar. Strauss samdi þá sumarið 1948, ári fyrir andlát sitt, og vissi að hverju stefndi. Hann fann huggun og hugsvölun í nokkrum ljóðum eftir Joseph Eichendorff og Hermann Hesse og klæddi þau í tónlistarbúning eins og til að búa sjálfan sig undir hið óumflýjanlega. Lífið, ástin, ævikvöldið og skrefið út í hið óþekkta eru umfjöllunarefni þessara undurfögru laga sem eru óbrotgjarn minnisvarði hins besta sem síðrómantíska stefnan hafði upp á að bjóða. Eins og svo oft áður hafði Strauss sópranrödd eiginkonu sinnar, Pauline, í huga þegar hann samdi söngvana. Hún hafði reyndar stigið niður af óperusviðinu eftir stuttan en glæsilegan feril ríflega hálfri öld fyrr, en rödd hennar endurómaði alla tíð í huga tónskáldsins og veitti honum innblástur. Kona hans hélt honum einnig við efnið í tónsmíðunum í löngu hjónabandi þeirra, því ef hún sá hann eigra stefnulítið um heimili þeirra var hún vön að kalla: „Richard, farðu að semja!“ Strauss heyrði síðasta verk sitt aldrei flutt og heldur ekki Pauline. Hún lést átta mánuðum á eftir manni sínum og níu dögum áður en Kirsten Flagstad frumflutti söngvana í Royal Albert Hall með Philharmonia Orchestra undir stjórn Furtwänglers 22. maí 1950. Edward Elgar „Herrar mínir, nú æfum við stórfenglegustu sinfóníu okkar tíma, samda af fremsta tónskáldi samtímans!“ Þessi skýru skilaboð fengu hljóðfæraleikarar Hallé-hljómsveitarinnar frá stjórnandanum Hans Richter þegar æfingar á sinfóníu nr. 1 eftir Edward Elgar hófust veturinn 1908. Þó að sú staðreynd að Elgar tileinkaði Richter verkið kunni að hafa haft einhver áhrif á hástemmda yfirlýsingu hans, verður því ekki á móti mælt að hér er um að ræða snilldartónsmíð og tímamótaverk í enskri tónlistarsögu. Sagt hefur verið að þetta hafi ekki einungis verið fyrsta sinfónía Elgars, heldur sú fyrsta sem England eignaðist og eitthvert gagn var í. Þetta mikla stórveldi hafði verið þekkt sem „landið án tónlistar“ á nítjándu öld og þó að sú nafngift hafi að sjálfsögðu verið nokkuð ýkt, var Elgar fyrsta enska tónskáldið sem gat kinnroðalaust mátað sig við fremstu kollega sína á meginlandinu frá því að Henry Purcell var og hét á sautjándu öld. Richard Strauss gekk svo langt að kalla hann fyrsta enska framfarasinnann. Og sinfónían féll óneitanlega í góðan jarðveg. Það var eins og tónlistarheimurinn hefði hreinlega beðið eftir henni, því rétt rúmu ári eftir frumflutninginn hafði hún hljómað yfir hundrað sinnum víðsvegar í heiminum. Enn hefur hún ekki verið leikin hér á landi, en því mun Sinfóníuhljómsveitin kippa í liðinn 18. nóvember 2004.