EN

28. janúar 2005

Myrkir músíkdagar fagna 25 ára afmæli

Fimmtudaginn 3. febrúar verða tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir hatti Myrkra músíkdaga, hátíðar tónskáldafélagsins, sem fagnar 25 ára afmæli um þessar mundir. Myrkir músíkdagar hafa bitið sig fast inn í tónleikadagatal ársins og vekja nú eftirtekt langt út fyrir landsteinana. Í ár eru það fjórir höfundar sem kynna verk sín á tónleikunum með Sinfóníuhljómsveitinni, þeir Jón Nordal, Atli Heimir Sveinsson, Haukur Tómasson og Kjartan Ólafsson. Þess má geta að fjöldi tónleika er fyrirhugaður á næstu dögum, hátíðin hefst á sunnudag og stendur til 6. febrúar. Hægt er að skoða dagskrá hátíðarinnar á eftirfarandi vefslóð: http://listir.is/darkmusicdays/ +++ Hljómsveitarstjóri er Esa Heikkilä, en hann er jafnframt leiðari annarar fiðlu Sinfóníuhljómsveitarinnar í Lahti. Einleikari í verki Atla Heimis er Una Sveinbjarnardóttir. Skólakór Kársness kemur einnig fram undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur í verki Jóns Nordal: Venita ad me. Á hátíðinni gefst landunum færi á að heyra nýja og nýlega íslenska tónlist eftir fremstu höfunda landsins sem hafa hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Skemmst er að minnast þess er Haukur Tómasson hreppti Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrir verk sitt Fjórði söngur Guðrúnar, en það er einmitt á dagskrá tónleikanna þann 3. febrúar næstkomandi. Fimmtudagur 3. febrúar kl. 19.30 Háskólabíó við Hagatorg Sinfóníuhljómsveit Íslands Stjórnandi: Esa Heikkila Einleikari: Una Sveinbjarnardóttir, fiðla Kór Kársnessskóla Stjórnandi: Þórunn Björnsdóttir Efnisskrá: Jón Nordal Venite ad me (2004) (fyrsti flutningur á Íslandi) Atli Heimir Sveinsson Draumnökkvi (1990) Haukur Tómasson Gildran - Brot úr Fjórða söng Guðrúnar (1996 úts.2004) Hlé Haukur Tómasson Ardente (2004) (fyrsti flutningur á Íslandi) Kjartan Ólafsson Sólófónía (2004) (frumflutningur) Höfundarnir um verkin: Ég tileinka verk mitt Venite ad me (Komið til mín) minningu æskuvinar míns Halldórs Hansen, barnalækni sem nú er látinn. Hann helgaði heilsu barna í grimmum heimi líf sitt auk þess að vera ástríðufullur aðdáandi tónlistar. Þessar tvær hliðar vinar míns höfðu bæði áhrif á textaval fyrir verkið og þau litbrigði tónanna sem þar hljóma. Jón Nordal Verkið var samið 1987 fyrir Kammersveit Austurbotns, Jari Valo sem frumflutti það undir stjórn Juga Kangas í Kaustinen. Síðar var verkið flutt hér heima í Borgarleikhúsinu sem þá var nýlega komið í gagnið og það var Petri Saakari sem stjórnaði. Þetta er ljóðrænn og rómantískur söngur, nætur- og ástarljóð, hugleiðing um mynd Jóns Gunnars Árnssonar af Sólfarinu við Skúlagötu. Þetta sólfar sem ég sagði alltaf að væri draumaskip okkar allra og það stefnir inn í sólarlagið. Verkið er í einum þætti. Eftirfarandi orð eru sett í raddskrána: við siglum.... á draumnökkva... í tímanum... fljótandi... gegnum miðnætti... bjartrar nætur... í sólarátt... og einmana vindur djúpsins... syngur... Atli Heimir Sveinsson. Ardente var pantað af Orkester Norden og frumflutt af þeirri hljómsveit í Kaupmannahöfn undir stjórn Mark Wigglesworth. Verkið samanstendur af þremur hlutum. Sá fyrsti er bjartur með tréblásara og slagverk í aðalhlutverki. Annar hlutinn er fljótandi og látlaus, án andstæðna. Málmblásturshljóðfærin leiða þann þriðja sem endar í þykkum syndandi hljómum sem deyja fljótt út. Ardente er ítalska og merkir að verkið skuli leikið af ástríðu. Gildran (1996, útsett 2004) Gildran er hljómsveitarkafli úr óperunni Fjórði söngur Guðrúnar. Atli, sem nú er giftur Guðrúnu, hefur boðið bræðrum hennar í heimsókn. Þeir þiggja boðið en ganga þar með í gildru sem Atli hefur búið þeim og láta báðir lífið. Haukur Tómasson Sólófónía var samin árið 2004. Í verkinu er notast við mismundandi tónefnivið allt frá heimasmíðuðu tónefni að aldargömlum lagstefjum úr íslenskum þjóðlögum. Tónefnið var síðan unnið með tónsmíðakerfinu CALMUS sem er sérhannað fyrir nútíma tósmíðatækni. Með notkun á hinum mismunandi tónefni frá hinum ýmsu tímum- í samsettu og margþættu tónsmíðakerfi - blandast saman tónlistararfleifð Íslands og nútíma tónsmíðaaðferðir- sem til samans mynda tengingu frá gamalli tíð yfir í nútímann. Kjartan Ólafsson