EN

14. febrúar 2005

Petri Sakari stýrir fyrsta flutningi á 8. sinfóníu Bruckners hér á landi

Á fimmtudagskvöldið 17. febrúar mun 8. sinfónía Brucknes hljóma í fyrsta sinn í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Það er hljómsveitarstjórinn góðkunni, Petri Sakari, sem mun stýra flutningi verksins. Sem kunnugt er var Petri aðalhljómsveitarstjóri SÍ frá árinu 1987 til ársins 1998 og aftur frá1996 til 1998. Fáir eiga eins mikinn þátt í velgengni Sinfóníuhljómsveitar Íslands á undanförnum árum og Petri Sakari. Efnisskrá tónleikanna er komin á vefinn! +++ Petri hefur átt farsælt samstarf við hljómsveitina í tæpa tvo áratugi og hefur stjórnað henni á vel á annað hundrað tónleikum frá því að hann sté fyrst á stjórnandapallinn í Háskólabíói í október 1986. Hann hefur einnig hljóðritað fjölda geisladiska með hljómsveitinni og þar ber ef til vill hæst heildarútgáfu á sinfóníum Sibeliusar hjá Naxos, en hún hefur hlotið frábæra dóma í virtum fjölmiðlum. Petri Sakari er eftirsóttur stjórnandi víða um lönd, bæði í tónleikahöllum og óperuhúsum. Á næstunni mun hann starfa mikið á Bretlandseyjum, en hann er einnig atkvæðamikill á Norðurlöndum, stjórnar m.a. reglulega Finnsku útvarpshljómsveitinni og sýningum hjá Finnsku þjóðaróperunni og Gautaborgaróperunni. Á síðustu árum hefur Petri stýrt Sinfóníuhljómsveit Íslands í mörgum viðamiklum verkum, svo sem þriðju og sjöundu sinfóníu Mahlers og Alpasinfóníu Richards Strauss, en þessi stórvirki höfðu ekki áður hljómað á tónleikum Sinfóníunnar. Sömu sögu er að segja um áttundu sinfóníu Bruckners, sem nú mun heyrast í fyrsta sinn á tónleikum á Íslandi. „Hallelúja!“ hrópaði Anton Bruckner upp yfir sig þegar hann hafði lokið smíði áttundu sinfóníu sinnar eftir rúmlega þriggja ára vinnu. Hann sendi verkið til hljómsveitarstjórans Hermanns Levi, sem hann bar mikla virðingu fyrir, í þeirri von að hann legði blessun sína yfir það. Annað kom þó á daginn. Levi og fleiri vinir tónskáldsins lýstu furðu sinni á sinfóníunni og sögðu hana óskiljanlega. Þetta fékk svo mjög á Bruckner að hann hugleiddi um hríð að binda enda á líf sitt. Síðan fór eins og svo oft á ferli þessa óörugga og tvístígandi tónsmiðs (ætli nútímasálfræðingar myndu ekki tala um brotna sjálfsmynd) að hann lét gagnrýnisraddir kunningja sinna leiða sig aftur að vinnuborðinu. Hann lagði níundu sinfóníuna til hliðar (lauk henni reyndar aldrei) og eyddi drjúgum tíma næstu þrjú árin í að endurskrifa áttundu sinfóníuna frá grunni. Verkið, sem Bruckner kallaði „leyndardóminn“ sinn, var frumflutt í Vín í desember 1892 við frábærar undirtektir, en frumgerðin, sem einnig varðveittist, hljómaði ekki fyrr en árið 1973. Alla tuttugustu öldina rifust aðdáendur Bruckners um hvaða gerðir og útgáfur af hinum margendurskoðuðu sinfóníum hans væru rétthæstar og þær deilur verða líklega seint til lykta leiddar. Menn deila hinsvegar ekki lengur um gildi þessara stórbrotnu tónverka, sem eru löngu búin að vinna sér sess á efnisskrám metnaðarfullra sinfóníuhljómsveita um allan heim. Lengst af ævi tónskáldsins horfði málið öðruvísi við. Hljóðfæraleikarar Vínarfílharmóníunnar neituðu að taka fyrstu sinfóníurnar til flutnings og töldu þær fullkomlega óspilandi. Lengd verkanna óx mönnum í augum og keppinauturinn Brahms sagði þau vera „sinfónískar risakyrkislöngur“. Nú á dögum taka vafalaust fleiri undir þá líkingu að sinfóníur Bruckners séu sannkallaðar „dómkirkjur í tónum“, upphafnar, voldugar og frábærlega uppbyggðar. Og sú áttunda er kannski sú allra stórfenglegasta. Þeirri fullyrðingu til stuðnings má benda á orð Hugos Wolfs: „Þessi sinfónía er sköpunarverk stórmennis og skarar fram úr öðrum sinfóníum meistarans hvað andlegar víddir, hugmyndaauðgi og mikilfengleik varðar.“