EN

23. maí 2005

Rumon Gamba heldur áfram ferð sinni um tónheima Sjostakovitsj

Fimmtudaginn 26. maí er röðin komin að sjöundu sinfóníunni í hinu metnaðarfulla verkefni aðalhljómsveitarstjórans Rumon Gamba, að flytja allar sinfóníur Sjostakovitsj. Auk hennar er hið ægifagra adagio fyrir strengi eftir Samuel Barber á efnisskránni, verk sem hefur hlotið þann sess að verða einhverskonar opinber sorgartónlist Bandaríkjamanna. Tónskáldið var þó ekkert sérlega hnuggið þegar verkið var samið eftir hugmynd Virgilíusar um smálækinn sem verður smám saman að voldugu fljóti. Óhætt er að fullyrða að honum hafi tekist að yfirfæra þá mynd í tónmál með seiðmögnuðum hætti. Miðasalan er alltaf opin á netinu! +++ Sagan segir að Dímítríj Sjostakovítsj hafi haft í hyggju að kíkja á fótboltaleik í Leníngrad (St. Pétursborg) með nokkrum vinum sínum sunnudaginn 22. júní 1941. Ekkert varð þó úr ferðinni á völlinn, því þennan dag bárust fréttir af innrás Þjóðverja í landið og Sjostakovítsj lagði í staðinn leið sína á herskráningarskrifstofu til að bjóða fram krafta sína. Herinn hafði ekki not fyrir hinn nærsýna og veikbyggða tónsmið, en hann átti þó sannarlega eftir að leggja sitt af mörkum í því að efla baráttuanda þjóðarinnar. Hið 900 daga langa umsátur um Leníngrad hófst í september 1941 og tók hryllilegan toll af íbúum borgarinnar. Sjöunda sinfónía Sjostakovítsj var frumflutt í mars 1942 í borginni Kúbisjev og varð samstundis mikilvægt tákn um hetjulega andspyrnu Leníngradbúa við innrásaröflin, enda að hluta til samin í umkringdri borginni, allt þar til sovésk yfirvöld fluttu tónsmiðinn nauðugan viljugan í hættuminna umhverfi í Moskvu. Áróðursmáttur þessarar mögnuðu sinfóníu var mikill (Sjostakovítsj nefndi lokakaflann upphaflega „Sigur“) og hún var leikin víðsvegar í Sovétríkjunum og á Vesturlöndum, en þangað var nótunum komið á örfilmu. Toscanini og Stokowski börðust um að verða fyrstir til að flytja sinfóníuna utan Sovétríkjanna, en Henry Wood varð á undan á lokasprettinum og stjórnaði henni á Promstónleikum í London. Frægasti flutningur verksins átti sér þó stað í Leníngrad sjálfri í ágúst 1942. Þeir tónlistarmenn sem enn voru í borginni, auk kollega þeirra sem kallaðir voru frá vígstöðvunum, léku sinfóníuna einmitt þann dag sem Hitler hafði áætlað að borgin félli í hendur Þjóðverja. Því hefur verið haldið fram að Sjostakovítsj hafi hafist handa við sjöundu sinfóníuna áður en stríðið braust út og hugsað hana sem einskonar sálumessu fyrir þá sem látið höfðu lífið í ofsóknum Stalíns. En hvernig sem litið er á þetta verk hlýtur það að teljast margbrotin heimild um viðsjárverða tíma og flókna stöðu viðkvæms tónskálds í hringiðu atburðanna. Fá tónverk orka jafn sterkt á hlustendur og Adagio Samuels Barbers. Allt frá því að Toscanini frumflutti verkið með NBC-sinfóníuhljómsveitinni í beinni útvarpsútsendingu árið 1938 hefur það haldið nafni tónskáldsins á lofti og það öðlaðist fljótlega sess sem óopinber sorgartónlist Bandaríkjanna: forsetarnir Roosevelt og Kennedy eru meðal þeirra sem minnst hefur verið með flutningi þessa tilfinningaþrungna verks. Adagioið var upphaflega kafli í strengjakvartett, en Barber útsetti það sjálfur fyrir strengjasveit og síðar einnig fyrir kór við bænina Agnus Dei.