21. nóvember 2005
Þegar "klámfengnir" tilburðir Nijinskísj hneyksluðu Parísarbúa
Eftir einkar vel heppnaða tónleika í síðustu viku verður fróðlegt að heyra hvernig aðalhljómsveitarstjóra og hljómsveit tekst vinna sig frá hinni mögnuðu stríðsátakatónlist Sjostakovitsj til hinnar draumkenndu ævintýratónlistar Debussy, Helgidansa Tippets og ævintýrisins um elskendurna Dafnis og Klói. Fimmtudaginn 24. nóvember eiga þessi höfundar verk á efnisskrá og segja má að dansinn sé rauði þráðurinn á tónleikunum. Verk Frakkanna Debussy og Ravel hafa bæði verið túlkuð í dansi rússneska snillingsins Vaslavs Nijinskíjs. Hann fékk þó heldur bágt fyrir framlag sitt +++til verks Debussys um Skógarpúkann. Sá lét sig dreyma um að táldraga yngismeyjar í skóginum og hinum erótíska undirtóni verksins gerði Nijinskíjs svo öflug skil að tilburðir hans voru álitnir allt að því klámfengnir af siðapostulum Parísarborgar þeirra tíma. „Ég bjóst engan veginn við þessu,“ hrópaði ljóðskáldið Stephane Mallarmé þegar Claude Debussy hafði leikið hljómsveitarverk sitt, Síðdegi skógarpúkans, fyrir hann á píanóið árið 1894. Með forleiknum hafði hinn ungi Debussy fundið sér stefnu í tónsmíðunum, og setti mark sitt á tónlist 20. aldar svo um munaði. Forleikurinn átti upphaflega að vera fyrsti þáttur af þremur sem byggði á samnefndu ljóði Mallarmés, en þegar til kom ákvað Debussy að láta staðar numið. Litir skógarins, ilmur og hljómar sameinast í erótískri lýsingunni, sem fékk loks dansbúning við sitt hæfi átján árum síðar, þegar tvíræðar hreyfingarnar í ballett Vaslavs Nijinskíjs hneyksluðu Parísarbúa upp úr skónum. Í ár er öld liðin frá fæðingu Sir Michaels Tippetts (1905-1998), sem var eitt fremsta og um leið eitt óvenjulegasta tónskáld Bretlands á 20. öldinni. Hann var mikill hugsjónamaður og skrifaði af miklu innsæi um hlutverk listamannsins í samfélagi nútímans. Tónverk hans eru af margvíslegum toga, en í mörgum þeirra lítur hann aftur til gamalla forma: óperur, sinfóníur, konsertar og strengjakvartettar eru stór hluti af ævistarfi hans. Fyrir Tippett átti tónlistin fyrst og fremst að ná til fólks, og hún átti að flytja mannbætandi boðskap. Fyrsta ópera Tippetts, Jónsmessubrúðkaup (The Midsummer Marriage, 1955), er enn talin með merkustu verkum hans. Helgidansarnir úr öðrum þætti óperunnar sameina frumstæða spennu og einstakar lagrænar gáfur tónskáldsins, og hafa löngum verið vinsælt konsertstykki á efnisskrám hljómsveita víða um heim. Það gekk allt á afturfótunum hjá Rússneska ballettinum í París vorið 1912. Ballettstjórinn Sergei Diaghilev hafði pantað balletttónlist frá Maurice Ravel heilum fimm árum áður, um fögru meyna Klói, sem er rænt af stigamönnum en er að lokum bjargað af sínum heittelskaða Dafnis. En smíði verksins gekk ekki vandræðalaust fyrir sig. „Fokine, sem skrifar handritið, talar ekki orð í frönsku, og ég kann ekkert í rússnesku nema blótsyrði,“ kvartaði Ravel. Dansahöfundarnir áttu í stöðugum erjum sín á milli, og um tíma leit út fyrir að Diaghilev myndi hætta við allt saman. Dansararnir áttu líka í stökustu erfiðleikum með að læra tónlistina (þó ekki nærri eins miklum og þegar þeir dönsuðu Vorblót Stravinskíjs ári síðar). Að lokum var verkið þó flutt, á sömu efnisskrá og ballett Nijinskíjs við forleik Debussys. Til að byrja með féll Dafnis og Klói algjörlega í skuggann af hinum „klámfengnu“ tilburðum fyrrnefnda verksins, en ekki leið á löngu þar til áheyrendur tóku ástfóstri við hina óendanlega litríku og fjörugu tónlist Ravels.