EN

9. janúar 2006

Athyglisvert námskeið um Mozart á vegum Endurmenntunar Háskólans

Í janúar 2006 eru 250 ár liðin frá því að einn mesti snillingur tónlistarsögunnar, Wolfgang Amadeus Mozart, fæddist í Salzburg í Austurríki. Skyggnst verður í hugarheim hins svokallaða klassíska tímabils tónlistarsögunnar, og ferill Mozarts rakinn allt frá æskuárum til dánardags. Hver var sérstaða Mozarts, og hver voru áhrif hans á tónlistarsöguna? Fjallað verður um nokkur helstu tónverk hans og þau skoðuð frá ýmsum sjónarhólum. +++ Hljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands koma í heimsókn og leika úr verkum meistarans. Meðal þeirra verka sem verða í forgrunni eru Júpíter-sinfónían, Sálumessan, og óperurnar Don Giovanni og Mildi Títusar (La clemenza di Tito), sem Sinfóníuhljómsveit Íslands flytur í fyrsta sinn á Íslandi í lok janúar. Hægt er að skrá sig á vef EHÍ. Þátttakendur á námskeiðinu fá 50% afslátt af miðaverði á Mildi Títusar gegn framvísun greiðslukvittunar fyrir námskeiðsgjaldi. Búist er við miklum áhuga á þessum tónleikum og því er áhugasömum bent á að verða sér úti um miða hið fyrsta. Hægt er að greiða námskeiðsgjald fyrirfram. Námskeiðið fer fram í sal Norræna hússins.