20. janúar 2006
Til hamingju með 250 ára afmælið
„Ódauðlegi Mozart! Ég á þér allt að þakka. Það er vegna tónlistar þinnar að ég mun ekki deyja án þess að hafa elskað.“ Þannig mælti danski heimspekingurinn Søren Kierkegaard og eflaust geta margir tekið undir þau orð. Þann 27. janúar 2006 verða 250 ár liðin frá fæðingu Wolfgangs Amadeus Mozart, eins mesta tónsnillings allra tíma og Sinfóníuhljómsveit Íslands minnist þessa með þrennum afmælistónleikum á seinni hluta starfsársins. Kaupa miða! +++ Á fyrstu Mozart-tónleikum starfsársins verður flutt næstsíðasta ópera Mozarts, Mildi Títusar (La clemenza di Tito). Mozart samdi óperuna haustið 1791, þegar hann var önnum kafinn við að ljúka við Töfraflautuna og átti einungis örfáa mánuði eftir ólifaða. Þótt söguefni Títusar sé öllu alvarlegra finnst mörgum hlustendum þeir heyra óminn af Töfraflautunni víða í Títusi. Mildi Títusar hefur ekki áður verið flutt á Íslandi, en nú fá áheyrendur Sinfóníuhljómsveitarinnar að kynnast henni í flutningi íslenskra úrvalssöngvara. Lesa efnisskrá Þau Gunnar Guðbjörnsson, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, Rannveig Fríða Bragadóttir, Hallveig Rúnarsdóttir og Davíð Ólafsson eru öll í hópi okkar glæsilegustu söngvara. Auk þeirra mun söngkonan Danielle Halbwachs taka þátt í flutningi verksins sem verður undir stjórn aðalhljómsveitarstjórans Rumons Gamba. Sönghópurinn góðkunni Hljómeyki mun einnig taka þátt í flutninginum. Sagan gerist í Rómaveldi til forna, og fjallar um ástir, svik og hefndir. Títus keisari hyggst kvænast dóttur Júdeukonungs, en Vitellía hyggst ná fram hefndum fyrir föður sinn, fyrrum keisara, og leggur á ráðin um að myrða Títus. Hún fær vin keisarans, Sextus, sem er yfir sig ástfanginn af Vitellíu, til að taka voðaverkið að sér. Hann kveikir í ráðhúsinu og um stund lítur út fyrir að Títus hafi látið lífið. Hann lifir tilræðið hins vegar af og Sextus tekur á sig allar sakir. En Títus getur ekki fengið sig til að dæma vin sinn til dauða, og að lokum gefur hann bæði Vitellíu og Sextusi upp allar sakir. Aðeins örfáir miðar eru eftir á tónleikana svo áhugasamir ættu að hafa hraðar hendur ætli þeir sér að nálgast miða. Persónur: Títus, keisari Rómaveldis: Gunnar Guðbjörnsson Vitellia, dóttir keisarans Vitelliusar: Danielle Halbwachs Servilia, systir Sextusar og ástvina Anniusar: Hallveig Rúnarsdóttir Sextus, vinur Titusar og ástfanginn af Vitelliu: Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir Annius, vinur Sextusar og ástvinur Serviliu: Rannveig Fríða Bragadóttir Publius, yfirmaður hersveitanna: Davíð Ólafsson