EN

26. janúar 2006

Undrabarnið sem horfðist í augu við dauðann

Lífshlaup bandaríska fiðluleikarans Rachel Barton Pine má kalla flest annað en hefðbundið. Hún ólst upp í mikilli fátækt í Irving Park hverfinu í Chicago með foreldrum sínum og tveimur yngri systkinum. Þriggja ára gömul sat hún messu í kirkju hverfisins ásamt fjölskyldunni og þar heillaðist hún af ungum stúlkum sem komu fram og léku á fiðlur. Hrifningin var þó aðallega vegna kjólanna sem þær klæddust en engu að síður heimtaði Pine að fá sams konar hljóðfæri. Eftir nokkurt suð unga barnsins var henni komið fyrir í námi og svo heppilega vildi til að nágranni fjölskyldunnar var fiðlukennari sem samþykkti að taka við henni. Það sem foreldrar hennar töldu fyrir víst að yrði aðeins stundargaman snérist upp í ástríðu. +++ Unga stúlkan helgaði sig náminu af svo mikilli elju og áhuga að undrun sætti. Fljótlega fékk hún einkatíma hjá Roland og Almitu Valmos og vegna óvenjulegra hæfileika stúlkunnar og ákveðni hennar í að ná langt, var nauðsynlegt fyrir hana að æfa í allt að átta klukkustundir á dag. Því varð úr að Pine hætti í skóla en foreldrar hennar tóku við menntun hennar. Föður hennar gekk illa að halda vinnu og fjölskyldan fór því að reiða sig á tekjur stúlkunnar ungu sem smátt og smátt varð ábyrg fyrir matarinnkaupum og húsnæðislánum. Aðeins 14 ára gömul var Pine orðin fyrirvinna fjölskyldunnar, lék á fiðluna í brúðkaupum, veislum og á hvers kyns mannamótum; gætti þess alltaf að farða sig hressilega og ljúga aðeins til um aldur. Segja má að árið 1995 hafi minnstu munað að fiðlan drægi Pine til dauða í bókstaflegri merkingu. Dag nokkurn þegar hún einu sinni sem oftar gerði sér ferð með lestum Chicago-borgar vildi ekki betur til en svo að fiðlutaskan hennar festist í lestardyrum með þeim afleiðingum að Pine dróst niður á lestarteinana. Í þessu hörmulega slysi missti hún vinstri fót og skaddaðist alvarlega á þeim hægri. Í kjölfar þess höfðaði hún mál á hendur Chicago Metratransaportation agency og voru henni dæmdar milljónir dollara í skaðabætur. Erfiður uppvöxtur í sárri fátækt, sú ábyrgð sem lögð var á herðar óhörðnuðum unglingi og ekki síst sú skelfilega lífsreynsla að horfast í augu við dauðann en sleppa naumlega hefur sett mark sitt á líf Rachel Barton Pine og ekki síst viðhorf hennar til þess. Úr erfiðri reynslu hefur mannsandinn oftar en ekki risið hærra en nokkru sinni áður. Í dag þjónar Rachel Barton Pine þeirri köllun sinni að breiða út klassíska tónlist hvar sem hún kemur og hefur vakið athygli fyrir aðferðir sínar við að ná eyrum yngri hlustenda. Sjálf er hún mikill unnandi þungarokks og nýtir sér það til þess að kynna klassíska tónlist. Hún heimsækir til að mynda rokk-útvarpsstöðvar fyrir ungt fólk, leikur þar jöfnum höndum Metallica og Mozart og hrífur fólk með sér með hæfileikum sínum og óbilandi trú á lífið. Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands ásamt Rachel Barton Pine verða fimmtudaginn 2. febrúar klukkan. 19.30. Pine mun leika Fiðlukonsert nr. 2 “í ungverskum stíl” eftir Joseph Joachim. Einnig er á efnisskránni það kvöld sinfónía nr. 6 eftir Sergej Prókofíev. Hljómsveitarstjóri er Carlos Kalmar.