EN

6. febrúar 2006

Ungir einleikarar með Sinfóníuhljómsveitinni

Þann 11. febrúar næstkomandi er komið að hinum árlegu tónleikum þegar ungir nemendur úr íslenskum tónlistarskólum spreyta sig með Sinfóníuhljómsveitinni. Að þessu sinni eru nemendurnir fjórir og koma úr Listaháskóla Íslands og Tónlistarskóla Reykjavíkur. Fjöldi nemenda tekur þátt í forkeppni og þeir sem þykja skara framúr býðst þetta einstaka tækifæri. Margir af núverandi hljóðfæraleikurum SÍ kannast við þá eftirvæntingu og spennu sem fylgir því að leika í fyrsta sinn með Sinfóníuhljómsveitinni. Andrúmsloftið er einatt blandið eftirvæntingu og jákvæðri spennu þegar kemur að þessum viðburði og óhætt er að segja að undanfarin ár hafa gestir farið ánægðir heim að loknum vel heppnuðum tónleikum þar sem eldmóður og spilagleði æskunnar hefur hrifið þá í hæstu hæðir. +++ Á tónleikunum mun Jóhann Nardeu úr Tónlistarskólanum í Reykjavík leika trompetkonsert eftir, Johann Nepomuk Hummel. Aðrir nemendur koma úr Listaháskólanum en það eru þau Gunnhildur Daðadóttir sem mun leika fiðlukonsert eftir Alexander Glazunov, Júlía Mogensen sem leika mun sellókonsert eftir Camille Saint-Säens og Guðný Jónasdóttir sem leikur sellókonsert eftir Edward Elgar. Hljómsveitarstjóri verður enginn annar en aðalhljómsveitarstjóri SÍ, Rumon Gamba. Tónleikarnir hefjast klukkan 17.00 og öllum er framvísa nemendaskírteini stendur til boða að kaupa miða á aðeins 1450 krónur. Miðasala er hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands í síma 545200. Rétt er að benda á sérstakt tilboð í tilefni nemendatónleikanna og tónleika SÍ á Myrkum músíkdögum sem verða þann 9. febrúar. Hægt er að njóta tveggja tónleika í sömu vikunni á verði einna. Ný íslensk tónlist og ungir íslenskir einleikar.