28. febrúar 2006
Fjörlegur marsmánuður í tónleikahaldi
Það verður heilmikið um að vera hjá Sinfóníuhljómsveitinni í marsmánuði. Alls verða fimm tónleikar á dagskrá og hafi einhverntíma mátt fullyrða að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi þá er það núna. Fyrstu tónleikar mánaðarins verðu nú á laugardaginn og eru þeir liður í Tónsprotanum svokallaða, tónleikaröð fjölskyldunnar. Þá kemur fram hinn ágæti Kór Kársnesskóla undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur. Hljómsveitarstjóri verður hinn góðkunni Bernharður Wilkinson. Efnisskráin er heillöng og spennandi, fjöldi verka eftir þekkta höfunda. Nánari upplýsingar má finna í dálkinum “Á döfinni” hægra megin á síðunni. Einungis eru um 150 miðar eftir á tónleikana. +++ Þann 9. mars er komið að afmælistónleikum Jóns Nordal en tónskáldið fagnar 80 ára afmæli sínu um þessar mundir. Á efnisskrá tónleikanna verður að finna rjómann af konsertum Jóns og mun fjöldi einleikara heiðra hann við þetta tækifæri. Fram koma þau Guðný Guðmundsdóttir, Einar Jóhannesson, Víkingur Heiðar Ólafsson, Ásdís Valdimarsdóttir og Erling Blöndal Bengtsson. Þann 16. mars verður hljómsveitarstjórinn geðþekki David Charles Abell við stjórnvölinn. Abell hefur einna helst getið sér gott orð sem stjórnandi bandarískra verka, ekki síst verka læriföðrur síns, sjálfs Leonard Bernstein, en í þetta sinn sýnir hann á sér aðra hlið og stjórnar tveimur frönskum meistaraverkum ásamt sinfóníu eftir Copland. Píanókonsert nr. 4 eftir Camille Saint-Saëns mun píanistinn Stepehn Hough leika. Rumon Gamba heldur áfram á ferðalagi sínu um tónheim Dímítrís Sjostakovitsj og þann 23. mars verður dagskráin eingöngu helguð hans verkum. Þriggja rétta Sjostakovitsj, tvær sinfóníur og einn píanókonsert leikinn af Peter Jablonski. Flestir eru sammála um það að ferðin hafi hingað til verið hin glæsilegasta og hefur framtakið vakið verðskuldaða athygli. Á síðustu tónleikum mánaðarins þann 30., er svo komið að sænska básúnuleikaranum Christian Lindberg. Hann lætur sér “duga” í þetta sinn að vera í hlutverki hljómsveitarstjórans en með honum í för verður norski trompetleikarinn Ole Edvard Antonsen sem fullyrt er að sé einn sá albesti á sínu sviði. Á efnisskránni eru verk eftir Jan Sandstöm, Christian Lindberg og Önnu S. Þorvaldsdóttur.