2. mars 2006
Kór Kársnesskóla syngur með Sinfóníuhljómsveitinni á fjölskyldutónleikum
Laugardaginn 4. mars klukkan 16.00 eru á dagskrá fjölbreytilegir og spennandi fjölskyldutónleikar í Háskólabíói. Kór Kársnesskóla undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur kemur fram með hljómsveitinni en hljómsveitastjóri verður Bernharður Wilkinson. Kór Kársnesskóla hefur verið starfræktur í 30 ár og kveikt áhuga fjölda nemenda á tónlist. Þórunn Björnsdóttir hefur allan þennan tíma stýrt kórnum en það sá hún tæpast fyrir þegar hún tók við starfinu fyrir þremur áratugum enda bar það að með frekar óvenjulegum hætti: +++ Árið1975 leitaði Björn Guðjónsson, fyrrum stjórnandi Skólahljómsveitar Kópavogs til Þórunnar sem þá var í kennaranámi í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Samtal þeirra var eftirfarandi: Björn: „Þú átt að mæta á morgun í Kársnesskóla og hitta Gunnar skólastjóra.“ Tóta: „Til hvers?“ Björn: „Þú átt að stjórna barnakór.“ Tóta: „En ég kann það ekki.“ Björn: „Þá verður þú bara að læra það.“ Þrjátíu árum síðar er Þórunn Björnsdóttir ennþá kórstjóri í Kársnesskóla og víst er að framlag hennar til tónmennta barna við skólann og víðar hefur verið gríðarlegt. Sérstaða kórstarfsins í Kársnesskóla einkennist af almennri þátttöku allra nemenda skólans, þar sem þorri kóræfinga fer fram á skólatíma og “skólakór” er eins og hver önnur námsgrein á stundaskrá. Það hefur jafnan verið bjargföst trú kórstjórans að öll börn geti sungið fái þau til þess tækifæri og tilsögn. Skólakór Kársness hefur frá upphafi verið mjög atkvæðamikill í íslensku tónlistarlífi, haldið tónleika um allt land og sungið á óteljandi fjölda hátíða og menningarviðburða. Kórinn hefur einnig tekið þátt í mörgum kórahátíðum víðsvegar í Evrópu og vestan hafs og verið fulltrúi landsins á erlendum menningarhátíðum. Ber það hæst frumflutningur á tónverkinu Venite ad me eftir Jón Nordal á tónlistarhátíð í París 2004 og þátttaka kórsins á EXPO heimssýningunni í Japan s.l. sumar. Var kórinn tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2005. Kórfélagar hafa í áranna rás einnig tekið þátt í hæfileika- og söngvakeppnum og sungið í óperu- og söngleikjasýningum, m.a. hjá Íslensku Óperunni og í Þjóðleikhúsinu. Söngvarar og tónlistarmenn hafa fengið kórfélaga til að syngja með sér á geisladiskum og á tónleikum og tónskáld hafa samið sérstaklega fyrir Skólakór Kársness. Margir framúrskarandi tónlistarmenn hafa hafið tónlistarferil sinn í kórum Kársnesskóla. Skólakór Kársness hefur margsinnis komið fram með Sinfónúhljómsveit Íslands og í teilefni af 30 ára starfsafmælisi syngja um tvöhundruð söngvarar á aldrinum 10 - 16 ára með hljómsveitinni í dag. Hægt er að skoða efnisskrá tónleikanna með því að smella á krækjuna hér fyrir neðan: http://sinfonia.is/default.asp?page_id=6786