EN

16. mars 2006

Þriggja rétta Sjostakovitsj-veisla fimmtudaginn 23. mars

Fimmtudagurinn 23. mars er stór dagur fyrir aðdáendur Dímítríj Sjostakovitsj því þá mun Sinfóníuhljómsveitin reiða fram þríréttaða dagskrá, eingöngu með verkum tónskáldsins. Veislustjórinn, Rumon Gamba, hefur notið sín fádæma vel í hlutverki gestgjafans á stjórnendapallinum þegar Sjostakovitsj er á efnisskránni. Líkt og margir muna einsetti hann sér það á fyrstu dögum embættis síns að allar 15 sinfóníur Sjostakovitsj skyldu leiknar á tónleikum SÍ og nú er komið að þeirri níundu og tíundu. Auk þess er píanókonsert nr. 2 á efnisskránni en gestur hljómsveitarinnar að þessu sinn verður sænski píanóleikarinn Peter Jablonski. Sá kemur reglulega fram undir stjórn Vladimirs Ashkenazy og geisladiskur hans með Paganini-rapsódíu Rachmaninovs (undir stjórn Ashkenazys) vann hin virtu Edison-verðlaun. Hann er einnig afar áhugasamur spilari kammertónlistar, og stofnaði eigin kammertónlistarhátíð sem haldin er í Karlskrona í Svíþjóð á hverju sumri.