20. mars 2006
FL Group verður aðalstyrktaraðili Sinfóníuhljómsveitar íslands
Sinfóníuhljómsveit Íslands og FL Group hafa gert með sér samning sem að líkindum er stærsti samstarfssamningur á milli einkafyrirtækis og opinberrar listastofnunar sem um getur á Íslandi. FL Group tekur því, frá og með deginum í dag, stöðu aðalstyrktaraðila Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Samningurinn, sem er að andvirði 40 milljónir króna, gildir til næstu fjögurra ára var undirritaður í Þjóðmenningarhúsinu í dag við hátíðlega athöfn. Samningurinn er afar mikilvægur fyrir hljómsveitina, bæði vegna þess að hann gerir henni kleift að stórefla fræðslu- og kynningarstarf sitt en einnig skiptir hann miklu máli í ljósi þess að nú styttist óðum í nýja tónlistarhúsið þar sem mikil tækifæri bíða Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Um samninginn segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group: „Stjórn FL Group hefur markað sér þá stefnu að styðja verkefni á sviði mannúðar og menningar. Í lok síðasta árs styrktum við, ásamt tveimur öðrum félögum, uppbyggingu fyrir börn á vegum UNICEF í Gineu-Bissá. Og núna erum við að gera þennan samning við Sinfóníuna, sem er að okkar viti, einn af helstu merkisberum íslenskrar menningar.