24. mars 2006
Christian Lindberg og Ole Edvard Antonsen leika með SÍ 30. mars
Væntanlegur er hingað til lands sænski básúnuleikarinnn og hljómsveitarstjórinn Christian Lindberg. Mörgum tónleikagestum er enn í fersku minni þegar hann kom til þess að leika Mótórhjólakonsertinn eftir vin sinn Jan Sandström fyrir 13 árum en þá veittu félagar í Bifhjólasamtökum Lýðveldisins, sjálfir Sniglarnir, honum heiðursfylgd alla leið inn í Háskólabíó. Þar snaraði Lindberg sér léttilega af baki og stillti sér upp með hljóðfærið fyrir framan undrandi tónleikagesti sem bjuggust við því að hann gengi virðulega inn á svið af hliðarvængnum.Christian Lindberg var einnig gestur hljómsveitarinnar á síðasta ári en þá kom hann til þess að stjórna og leika sinn eigin konsert um Helikonvespuna og gerði það með miklum bravúr og tilþrifum. Í þetta sinn er Lindberg einnig kominn til þess að stjórna hljómsveitinni í flutningi á eigin verki sem ber hið skemmtilega nafn Akbank bunka. +++ Að þessu sinni eftirlæltur hann öðrum blásara einleikshlutverkið, enda verkið samið fyrir hljómsveit og trompet. Með Lindberg í för verður norksi trompetleikarinn Ole Edvard Antonsen en hann er almennt talinn einn af fremstu trompleikurum heimsins í dag. Hann sagði upp stöðu sinni hjá Fílharmóníusveitinni í Osló fyrir ríflega fimmtán árum til þess að einbeita sér að sólóferli sínum og hefur á þeim tíma öðlast gríðarlega viðurkenningu. Ole Edvard frumflutti tropmpetkonsert Lindbergs, Akbank Bunka, í Skotlandi á síðasta ári og ætlaði bókstaflega allt um koll að keyra og einn gagnrýnaenda sparaði ekki hrósið: „Það er ekki oft sem nýtt tónverk kallar fram viðbrögð sem jafnast á við gömlu stríðshestana en konsert Lindbergs var eitt slíkt verk, með blöndu af ljóðrænu, litadýrð, endalausri orku og nægum tækifærum fyrir Antonsen til að sýna ótrúlega hæfileika sína.“ Auk trompetkonsertsins verða á efnisskrá tónleikanna fimmtudaginn 30. mars Forleikur í ítölskum stíl eftir Franz Schubert, Herragarðssaga eftir Jan Sandström, Stund milli stríða eftir Önnu S. Þorvaldsdóttur og trompetkonsert eftir Tartini.