EN

27. apríl 2006

Alban Gerhardt á leið til landsins. Einn mesti sellisti okkar tíma.

Fimmtudaginn 4. maí leikur þýski sellistinn Alban Gerhardt sellókonsert eftir Antonín Dvorák með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Koma hans er mikið gleðiefni því undanfarinn áratug hefur hann rækilega fest sig í sessi sem einn mesti sellisti okkar tíma. Hann lærði hjá hinum víðfræga Boris Pergamentsjíkov og bauðst snemma að leika einleik með Berlínarfílharmóníunni undir stjórn Seymons Bychkov. Þeir tónleikar opnuðu fyrir honum allar dyr, og síðan hefur hann m.a. unnið með Kurt Masur, Christoph Eschenbach, Colin Davis, Christoph von Dohnányi og Neeme Järvi. Alban Gerhardt hlaut ECHO Classic-verðlaunin fyrir hljóðritanir sínar árin 1998 og 2003, og hefur nýverið skrifað undir samning við bresku útgáfuna Hyperion. Hann hefur leikið í mörgum frægustu tónleikasölum heims, á Proms-hátíðinni í Lundúnum og Edinborgar-hátíðinni, svo fátt eitt sé nefnt.