EN

27. apríl 2006

Manstu gamla daga slær í gegn. Uppselt á tvenna tónleika

Nú eru orðið uppselt á báða tónleikana með þeim Ragnheiði Gröndal og Eivöru Pálsdóttur, en þær stöllur koma fram með Sinfóníuhljómsveitinni í kvöld og annað kvöld á tónleikum sem bera yfirskriftina Manstu gamla daga. Líkt og nafnið gefur til kynna verða klassískar íslenskar dægurflugur í öndvegi á efnisskránni, lög eftir gömlu meistarana,þá Jón Múla, Freymóð Jóhannsson, Sigfús Halldórsson og Alfreð Clausen svo einhverjir séu nefndir. Hrafnkell Orri Egilsson, sellóleikari, hefur útsett þessi sígrænu lög og verður spennandi að heyra þau í nýjum búningi í flutningi tveggja glæsilegra söngvara. Kynnir á tónleikunum verður engin önnur en þulan ástkæra, Ragnheiður Ásta Pétursdóttir, sem er löngu landsþekkt fyrir störf sín í Ríkistútvarpinu. Hljómsveitarstjóri á tónleikunum verður Benjamin Pope.