EN

5. maí 2006

Alexander Vedernikov tekst á við 6. sinfóníu Mahlers

Það verður mikið um dýrðir í næstu viku þegar 6. sinfónía Mahlers verður á efnisskrá Sinfóníuhljómsveitarinnar. Þegar Gustav Mahler lauk við verkið árið1904 gekk honum allt að óskum. Hann var einn valdamesti tónlistarmaður Vínarborgar, kvæntur hinni fögru og hæfileikaríku Ölmu Schindler, og var nýorðinn faðir í annað sinn. Lífið brosti við hinu rúmlega fertuga tónskáldi og hljómsveitarstjóra. En sjötta sinfónía Mahlers er einhver sú ógnvænlegasta sem samin hefur verið. Hún sýnir okkur heim örvæntingar og óreiðu; skuggi dauðans er óumflýjanlegur. Þremur árum síðar lést eldri dóttir Mahlers úr skarlatsótt og Mahler sjálfur greindist með hjartveiki sem leiddi til dauða hans árið 1911. Alma Mahler var þess fullviss að eiginmaður hennar hefði storkað örlögunum með sjöttu sinfóníunni og Barnadauðasöngvunum, sem hann samdi um sama leyti. Mahler var sjálfur á þeirri skoðun að listamenn gætu með listsköpun sinni skyggnst inn í framtíðina. Hljómsveitarstjórinn Alexander Vedernikov, sem mun halda um tónsprotann á tónleikunum, er ein skærasta stjarnan í tónlistarheimi Rússlands um þessar mundir. Hann hefur verið aðalhljómsveitarstjóri Bolsjoj-leikhússins í Moskvu frá haustinu 2001, og í janúar 2004 stjórnaði hann Rússnesku þjóðarhljómsveitinni á tónleikum í Carnegie Hall og Kennedy Center. Efnisskráin er komin á sinn stað.