EN

16. maí 2006

Afmælishátíð Mozarts heldur áfram. Ernst Kovacic leikur og stjórnar á tvennum tónleikum

Það hefur vart farið franmhjá neinum að á þessu ári er þess víða minnst að 250 ár eru frá fæðingu Mozarts. Það er engin ástæða til þess að láta staðar numið og því mun Sinfóníuhljómsveitin, fimmtudaginn 18. maí og föstudaginn 19. maí halda tónleika sem helgaðir eru minningu tónskáldsins. Á efnisskránni eru meðal annars ein af hans þekktustu sinfóníum, sú númer 40. Það er austurríski fiðluleikarinn Ernst Kovacic sem mun stjórna hljómsveitinni og leika einleik. Vitað er að Wolfgang Amadeus Mozart samdi fimm fiðlukonserta, en auk þess eru tveir konsertar eignaðir honum þótt upphaflegu handritin séu löngu glötuð. Fiðlukonsertinn í D-dúr (stundum kallaður „nr. 7“) er annar þeirra. Eina handritið sem hefur varðveist er frá miðri 19. öld, en flestir virðast sammála um að verkið geti vel verið eftir Mozart, og líklega saminn í Salzburg 1777. Þá var hinn tuttugu og eins árs gamli snillingur löngu búinn að fá nóg af yfirmanni sínum erkibiskupnum, og lagði allt í sölurnar fyrir stöðu hirðtónskálds í München. Þegar til kom lýsti kjörfurstinn í München því yfir að hann hefði enga stöðu handa Mozart, væntanlega til að ergja ekki vin sinn erkibiskupinn, en það urðu Mozart sár vonbrigði að þurfa að snúa aftur til Salzburgar þar sem hann starfaði næstu fimm árin.+++ Í júlí 1789 sat Mozart önnum kafinn við að semja þrjár síðustu sinfóníur sínar, á milli þess sem hann skrifaði sífellt örvæntingarfyllri bréf til bróður síns úr Frímúrarareglunni þar sem hann biður náðarsamlegast um lán. Hann var vongóður um að sér tækist að afla fjár með því að halda tónleika með nýjustu sinfóníum sínum, en þegar til kom skorti hann nauðsynlegt fjármagn og peningaáhyggjurnar jukust með hverjum mánuðinum. G-moll sinfónían, sem Mozart samdi mitt í þessum sálarþrengingum, er til skiptis dramatísk og þokkafull. Það er ekki að ástæðulausu sem hún er frægasta sinfónía meistarans, og eitt vinsælasta hljómsveitarverk allra tíma. Svissneska tónskáldið Frank Martin samdi Forleik í minningu Mozarts árið 1956, þegar 200 ár voru liðin frá fæðingu Mozarts. Forleikurinn er stutt og líflegt verk, og Martin leitast við að ná fram anda Mozarts án þess að nota ódýrar stíleftirlíkingar eða innantómar tilvísanir úr verkum meistarans. Sama ár pantaði Suðvestur-þýska útvarpið verk í tólf þáttum frá jafn mörgum tónskáldum, sem bar yfirskriftina Divertimento für Mozart. Meðal tónskáldanna voru Luciano Berio, Hans Werner Henze og Gottfried von Einem, sem lagði til upphafskafla verksins, Wandlungen (Umbreytingar). Öll tónskáldin fengu sömu fyrirmælin: tónlistin skyldi vera af glaðlegum toga, og þurfti að byggja á hinni sívinsælu aríu Papagenós úr Töfraflautunni, Ein Mädchen oder Weibchen. Efnisskrá: Hljómsveitarstjóri: Ernst Kovacic Einleikari: Ernst Kovacic Höfundur Verk Frank Martin: Ouverture en hommage a Mozart Wolfgang Amadeus Mozart: Fiðlukonsert í D-dúr KV 261a Gottfried von Einem: Wandlungen op.21 Wolfgang Amadeus Mozart: Sinfónía nr. 40 í g-moll Efnisskrána má lesa í heild sinni á eftirfarandi síðu: http://sinfonia.is/default.asp?page_id=6991