EN

26. maí 2006

Sinfóníuhljómveitin leikur á Listahátíð í Reykjavík

Föstudaginn 26. maí kl. 20.00 og laugardaginn 27. maí kl. 16.00, leikur Sinfóníuhljómsveit Íslands í porti Hafnarhússins. Á efnisskránni er franska óperan Le Pays eftir franska tónskáldið Joseph-Guy Ropartz. Á tónleikunum koma fram þrír af ástsælustu söngvurum landsins, þau Sigrún Hjálmtýsdóttir, Bergþór Pálsson og Gunnar Guðbjörnson. Þetta er í fyrsta sinn sem Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur á þessum sérstaka tónleikastað. Hljómsveitarstjóri er Kurt Kopecky, leikstjóri er Stefán Baldursson og dansari Lára Stefánsdóttir. Um útlit og búninga sér Filippía Elísdóttir. Le Pays er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Miðasala er hjá Listahátíð í Reykjavík www.artfest.is. Ropartz skrifaði óperuna Le Pays í byrjun 20. aldar. Óperan fjallar um franskan sjómann sem lifir af sjóslys úti fyrir ströndum landsins og verður ástfanginn af íslenskri stúlku. Efni óperunnar er byggt á sönnum atburðum sem áttu sér stað við strendur Íslands árið 1873. Þetta er fyrsti flutningur óperunnar í tæp hundrað ár en hún var frumsýnd í Nancy í Frakklandi árið 1912 og ári síðar í l’Opéra-Comique í París.