EN

29. maí 2006

Stefán Ragnar Höskuldsson leikur flautukonsert eftir Lowell Lieberman

Á tónleikunum á fimmtudaginn verður mikið um dýrðir. Ný sinfónía á efnisskrá auk þess frumflutningur hér á landi á flautukonsert eftir Lowell Lieberman. Það er gleðiefni að til verksins hafi fengist Íslendingurinn, Stefán Ragnar Höskuldsson, sem árið 2003 gerði sér lítið fyrir og vann prufuspil hjá Metropolitan-óperunni í New York sem þykir ein besta hljómsveit Bandaríkjanna um þessar mundir. Nokkur kvöld í viku leikur Stefán undir stjórn manna eins og James Levine og Valeríj Gergíev á meðan helstu óperusöngvarar heimsins þenja raddböndin á sviðinu. Stefán Ragnar lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1995 og stundaði framhaldsnám við Royal Northern College of Music í Manchester. Nú kemur Stefán Ragnar fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands í fyrsta sinn síðan hann lauk námi hér heima, og það er vel við hæfi að fyrrum kennari hans, Bernharður Wilkinson, haldi á tónsprotanum.