EN

6. júní 2006

Sigrún Eðvaldsdóttir leikur nýjan fiðlukonsert eftir Áskel Másson

Íslensk tónskáld eru atkvæðamikil þessa dagana í tónleikaskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Nýlokið er vel heppnuðum flutningi á nýrri sinfóníu Atla Heimis Sveinssonar þegar æfingar hefjast á nýjum fiðlukonsert eftir Áskel Másson. Konsertinn tileinkar Áskell einleikara verskins, sjálfum konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitarinnar, Sigrúnu Eðvaldsdóttur. Áskell segir svo frá í efnisskrá: „Verkið byggir aðallega á þremur stefjum eða laglínum: aðalstefi sem er umbreytt gerð ljúflingslags sem ég samdi 1984 handa dóttur minni nýfæddri, fúgustefi sem ég samdi á námsárum mínum í Lundúnum og loks þjóðlagi úr Þingeyjarsýslunni, „Bar svo til í byggðum.“ Stefin hefjast ýmist á fallandi þríund eða hálftónsbilum. Eins og kannski má búast við í fiðlukonsert er mikil áhersla lögð á lagræna úrvinnslu. Þannig eru oft tvö eða þrjú stefjabrot brædd saman í eitt, en einnig vildi ég setja fiðluna í ólík hljóðumhverfi og því gegna tónalitir hljóðfæranna og samsetningar þeirra mikilvægu hlutverki. Tónleikarnir sem verða fimmtudaginn 8. júní í Háskólabíói hefjast klukkan 19.30.+++ Stemmdar steinhellur frá Húsafelli og gong frá Asíu setja svip sinn á litróf verksins ásamt bjöllukenndum hljómi selestu, hörpu, víbrafóns, klukkuspils og crotales, eða forn-málmgjöllum. Sex einleiks-kontrabassar mynda bakgrunn einleikshljóðfærisins á einum stað í verkinu þar sem gömlum stefjabrotum er teflt saman. Einnig má nefna að eftir kadensuna kemur fram ný gerð aðalstefsins, að þessu sinni í e.k. marsa-stíl. Langur aðdragandi var að samningu þessa verks, en sjálfa raddskrána skrifaði ég á u.þ.b. hálfu ári, í Lundúnum og Reykjavík frá nóvember 2000 til maí 2001. Þar sem þessi orð eru skrifuð aðeins örfáum vikum fyrir þennan heimsfrumflutning verksins, vil ég nota tækifærið og þakka einleikaranum, Sigrúnu Eðvaldsdóttur, fyrir sérlega ánægjulegt samstarf og góðar ábendingar á lokasprettinum.“ Einnig verður á dagskrá tónleikanna Sinfónía nr. 11 eftir Dímítríj Sjostakovits Sigrún Eðvaldsdóttir hefur löngum haft yndi af að leika nýja tónlist og fleiri tónskáld hafa samið sérstaklega fyrir hana verk og tileinkað henni. Hennar er getið sem einum af áhugaverðustu fiðluleikurum framtíðarinnar í bók Henry Roth: Violin Virtuosos from Paganini to the 21st Century sem kom út árið 1997 og einnig í Tónlistartímaritinu le Monde de la Musique árið 1998. Það ár var Sigrún sæmd riddarakrossi hinnar Íslensku fálkaorðu fyrir störf sín á sviði tónlistar. Hún hefur leikið inn á hljómdiska fyrir ÍTM, Steinar hf. og Chandos. Sigrún hefur gegnt stöðu 1. Konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 1998 en með hljómsveitinni hefur hún margoft komið fram sem einleikari. Árið 2005 flutti hún allar sónötur Beethovens fyrir fiðlu og píanó á Listahátið í Reykjavík