EN

9. júní 2006

Sumartónar eftir Þorkel Sigurbjörnsson. Að líkindum fyrsta tónverkið sem samið er um rólóvöll

Það ríkir gósentíð í flutningi nýrra íslenkra verka á Hagamelnum þessa dagana. Þriðja nýja verkið á jafn mörgum vikum verður frumflutt fimmtudaginn 15. júní í Háskólabíói á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Verkið, sem er eftir Þorkel Sigurbjörnsson og samið að beiðni Vladimir Ashkenazy sem jafnframt mun stjórna flutningni þess, hefur fengið nafnið Sumartónar. Innblásturinn sækir Þorkell í æskuminningar sínar af sumardögum og kvöldum á rólóvellinum við Freyjugötu. "Þar var alltaf gnótt leiktækja, rólur, sölt og sandkassar, rennibraut, klifurgrind og annað sem varla var nothæft á veturna.+++ Þarna lékum við krakkarnir okkur líka ÁN leiktækja í „fallin spýtan“, „eitt stikk og sto“, „auraharki“, „fram fram fylking“ eða bófahasar o.s.frv. í leikjum sem enginn kann lengur. Við vorum yfirleitt góðir krakkar. Það var fátt um hrekkjasvín. Stundum kom Siggi gamli og spilaði fyrir okkur á munnhörpu, og hoppaði eitthvað, sem hann kallaði karíóka! Leiðinlegust var löggan, sem vildi koma okkur krökkunum í hús samkvæmt einhverju klukkuslagi á kvöldin. Svo var hægt að læðast út fyrir borgarmörkin, yfir Hringbraut og í Tívolí í Vatnsmýrinni. Þaðan komu líka alls konar sumartónar, ef heppnin var með.“ Efnisskrá tónleikanna er eftirfarandi: Hljómsveitarstjóri: Vladimir Ashkenazy Einleikari: Bryndís Halla Gylfadóttir Höfundur Verk Þorkell Sigurbjörnsson: Nýtt verk Edvard Elgar: Sellókonsert Pjotr Tsjajkovskíj: Sinfónía nr. 4 í f-moll op.36 Tónleikarnir verða endurteknir föstudaginn 16. júní og eru það jafnframt síðustu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands á þessu starfsári. Þeir hefjast klukkan 19.30 bæði kvöldin.