EN

18. ágúst 2006

Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur með Björgvini Halldórsssyni 23. september

Laugardaginn 23. september kl. 20:00 verður efnt til sannkallaðra stórtónleika í Laugardalshöll þar sem Björgvin Halldórsson flytur úrval laga úr efnisskrá sinni ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands, Fóstbræðrum, Hljómsveit Björgvins, bakröddum og nokkrum landsþekktum gestum. Miðasalan hefst fimmtudaginn 24. ágúst kl. 10:00. Laugardalshöllinni hefur verið skipt upp í tvö verðsvæði, sal og stúku, aðeins verður selt í númeruð sæti og um mjög takmarkað miðaframboð að ræða. Nánar verður tilKynnt um miðasölu innan skamms, en það skal tekið fram að aðeins verður um þessa einu tónleika að ræða og því vissara fyrir áhugasama að tryggja sér miða strax og það er hægt. +++ Mikið einvala lið listamanna kemur að tónleikunum. Hljómsveitarstjóri er Bernharður Wilkinson, Þórir Baldursson útsetur fyrir hljómsveit og kór og Hrafnkell Orri Egilsson útsetur forleik tónleikanna sem byggður er á lögum eftir Björgvin. Hrynsveit Björgvins, sem leikur ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands, skipa þeir Benedikt Brynleifsson, Róbert Þórhallsson, Þórir Baldursson, Þórir Úlfarsson, Vilhjálmur Guðjónsson, Matthías Stefánsson og Tatu Kantoma. Bakraddir skipa þau Friðrik Ómar, Regína Ósk, Eyjólfur Kristjánsson og Guðrún Gunnarsdóttir. Gestir Björgvins verða meðal annars börn hans, Svala og Krummi, ásamt fleirum. Fjölmargir aðrir koma að undirbúningi tónleikanna og má búast við að vel á annað hundrað manns taki þátt í þeim á einna eða annan hátt.